22/11/2024

Óskað eftir listaverkum eftir Strandamanninn Ísleif Konráðsson

Mynd af Drangaskörðum eftir ÍsleifÍ sumar verður Einstök sýning á Gíslastöðum í Haukadal í Dýrafirði. Þar verður einstakri mynd- og leiklist gerð skil. Að þessu sinni verður hinn merki listamaður af Ströndum Ísleifur Konráðsson í aðalhlutverki í myndlistinni. Sýnd verða nokkur verka hans og gefin út sérstök sýningarskrá þar sem fjallað verður sérstaklega um æfi og list þessa einstaka listamanns. Sýnining verður opnuð á Dýrafjarðardögum föstudaginn 2. júlí á Gíslastöðum og mun sýningin standa í þrjár vikur. Engin aðgangseyrir verður að sýningunni enda er það tilgangur sýningarinnar að kynna einstaka list fyrir landsmönnum öllum.

Það eru listahjónin Elfar Logi Hannesson, leikari, og Marsibil G. Kristjánsdóttir, mynlistarkona og Bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar, sem standa að Einstakri sýningu. Þau leita nú sérstaklega til sveitunga listamannsins og óska eftir að fá að láni listaverk eftir Ísleif Konráðsson til að hafa á Einstakri sýningu í sumar. Allar stærðir og gerðir listaverk eftir Ísleif koma til greina. Sýningahaldarar ábyrgjast að sjálfsögðu verkin meðan á sýningunni stendur og verða þau tryggð hjá tryggingafélagi. Áhugasamir hafi samband í síma 891 7025 eða sendi tölvupóst á netfangið komedia@komedia.is.

Til gamans fylgir hér grein úr væntanlegri sýningarskrá um Ísleif Konráðsson á Einstakri sýningu á Gíslastöðum í Haukadal Dýrafirði:

Einn af okkar fremstu einförum Ísleifur Sesselíus Konráðsson var fæddur 5. febrúar 1889 á prestsetrinu Stað í Steingrímsfirði á Ströndum. Foreldrar hans voru Konráð Sigurðsson og Guðrún Jónsdóttir ógift vinnuhjú og var Ísleifur því lausaleiksbarn. Ísleifur fór eins árs gamall í fóstur til Ólafar Jörundsdóttur að Hafnarhólmi, hjá henni bjó hann fram að fermingaraldri þar til hún deyr frá honum. Ólöf var hans eina móðir og má segja að með fráfalli hennar hafi Ísleifur orðið einstæðingur, en hann hafði lítið sem ekkert samband við fjölskyldu sína.

Hann vann fyrir sér frá 14 ára aldri við sjómennsku og fiskvinnslu fyrst í Drangsnesi og síðar um allt land. Hann kemur til höfuðborgarinnar 19 ára gamall, þar var enga vinnu að hafa en hann hafði safnað nægum peningum til að láta reyna á ævintýraþrána  og sigldi því til Kaupmannahafnar. Í Kaupmannahöfn fékk hann vinnu á millilandaskipi sem sigldi á milli Kaupmannahafnar og New York, en hann steig aldrei fæti inn í stórborgina New York þar sem honum var illa við hrikalega skýjakljúfa borgarinnar og líkaði ekki að þurfa að leggjast á bakið úti á miðri götu til að sjá stjörnurnar.

Lengst af vann Ísleifur samt á aðaljárnbrautarstöð Kaupmannahafnar við að pússa silfur. Hann hélt heim til Íslands fyrir mistök að eigin sögn. Í Kaupmannahöfn leigði hann herbergi hjá gamalli íslenskri ekkju sem bað  hann að fylgja sér heim til að deyja, sem hann og gerir. Við komuna til  Reykjavíkur átti hann ekki peninga  til að koma sér aftur til Kaupmannahafnar og hóf störf við Eyrina í Reykjavík. Við uppskipun  og fiskvinnslu í Reykjavík vann Ísleifur fram að eftirlaunaaldri eða til 70 ára aldurs.

Stuttu eftir að Ísleifur lauk sinni vinnuskyldu hittir hann svo mann á göngu í Reykjavík sem vísaði  honum veginn og gerði honum elliárin bærileg. Sá maður var Jóhannes Kjarval málari sem Ísleifur þekkti lítillega. Ísleifur spurði Kjarval hvort það væri ekki stórkostlegt að geta ferðast um landið og málað náttúruna, Kjarval segir honum að gera einfaldlega slíkt hið sama og Ísleifur tók hann á orðinu, fer rakleitt í verslun sem seldi myndlistarvörur og hóf að mála.  Sjálfur sagðist hann vart geta sofið vegna áhuga á því að mála og málaði nær daglega þar til hann deyr 83 ára gamall á Hrafnistu í Reykjavík og liggur nú grafinn á heimaslóðum á Ströndum.

Á Álfhólsveginum í Kópavogi byrjar Ísleifur að mála olíumálverk á striga sem hann stillir upp við yfirbreiddan dívan. Hann notaðist við sömu aðferðir og fóstra hans notaðist við þegar hún saumaði út, byrjar í vinstra horninu og færir sig upp og út á við. Hver ein og einasta mynd Ísleifs var unnin af mikilli vandvirkni og þolinmæði en líkamsþrek Ísleifs eftir ævilanga erfiðisvinnu í kuldanum á Eyrinni var nánast þorrin. Hann var krepptur, hokin og haltur, átti erfitt með að halda almennilega á pensli en þrá hans til að mála gerði þessar líkamlegu fatlanir að engu.

Í gegnum myndlist gat Ísleifur farið í ferðalög um náttúru Íslands frá herbergi sínu í Kópavogi. Í gengum myndirnar endurskapaði hann minningar um bernskuna á Ströndum og ferðalög sín um landið. Í myndum hans má finna náttúrusýn hins gamla bændasamfélags þar sem náttúran var lifandi og full af furðuverum. Trú Ísleifs á álfa kom frá fóstru hans Ólöfu sem sá sjálf álfa, Ísleifur sagðist aldrei hafa séð álfa en var þess fullviss að þeir væru um allt landið, nema í hrauninu því þeir væru líklegast sárfættir. Í málverkum hans er alltaf sumar því hann vildi ekki að eitthver vitleysa væri að flækjast inn í myndirnar enda vissi hann ekkert betra en fagra íslenska sumarnótt, fuglar sátu í björgum umkringdir fugladriti sem hann sagði fara svo fallega við svört björgin. Ísleifur gat lítið ferðast um heimaslóðir sínar á Ströndum vegna líkamlegs ástands síns  og erfiðra samgangna og málaði því allt eftir minni. Í málverkum af Drangsnesi sem þar sem Ísleifur steig sin fyrstu skref í fiskvinnslu málaði hann ekki einungis eftir minni heldur bætti við meiri og stærri byggð, svo að yngri Strandamenn þekktu nú staðinn í framtíðinni.

Við fyrstu sýn eru myndir Ísleifs kannski barnslegar, fullar af ævintýrum og hindurvitnum en þegar litið er lengra má sjá líf, trú og veruleika gamals manns sem minnist hamingjustunda í náttúrunni, vildi miðla þekkingu sinni til komandi kynslóða og síðast en ekki síst vildi að allir nytu þess að stíga inn í þennan framandi heim og leggja af stað í sitt eigið ferðalag.

Olga