22/12/2024

Opna Riis og Sjóvá mótið á morgun

Mikil stemmning hefur verið fyrir fótboltamótinu sem fer fram í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík á morgun laugardag, en keppnin hefst kl. 12:00. Sérstakir styrktaraðilar mótsins eru Sjóvá sem hefur gefið bikar til eignar til handa sigurvegurunum, ásamt verðlaunapeningum og Café Riis á Hólmavík sem býður sigurliðinu á pizza hlaðborð sem stendur yfir milli 18:00 og 20:00. Það skal tekið fram að hlaðborðið á Café Riis er að sjálfsögðu opið öllum en barinn verður opinn til klukkan 03:00 á eftir. Skráning hefur farið fram á spjalltorgi strandir.saudfjarsetur.is og eru nú skráð eftirfarandi lið til þátttöku:

Hraðlestin sem eru brottfluttir Strandamenn úr Reykjavík.
Þeir Gömlu, stjörnulið Benedikts S. Péturssonar og Guðmundar V. Gústafssonar ásamt oddvitanum.
Young boys sem eru ungliðar á Hólmavík
Halldór Friðgeirs og félagar. Ungt og gott lið að sögn Halldórs.
Sigurliðið sem er líklega skipað leikmönnum sem ekki komust í önnur lið.

Að að auki eru tvö önnur lið búin að skrá sig til leiks eftir öðrum leiðum, en það eru:
FC Kareokí frá Ísafirði, sem ætlar að koma á óvart og gefur ekki upp liðskipan spjallinu.
Stuðmenn, en það er lið frá Orkubúi Vestfjarða.
 
Meðfylgjandi mynd var tekin í Strandaboltanum í Fífunni á lokaæfingu fyrir mót sl. föstudag og var þar líklega besta mæting sem hefur verið á þá samkomu frá upphafi.


Strandamenn fyrir sunnan æfa af kappi fyrir mótið