22/12/2024

Opin æfing hjá Leikfélaginu í kvöld

DUm þessar mundir standa yfir stífar æfingar hjá Leikfélagi Hólmavíkur á farsanum Viltu finna milljón eftir Ray Cooney í þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar. Átta leikarar taka þátt í uppsetningunni auk fjölda annarra hjálparkokka. Í kvöld, miðvikudagskvöld 8. apríl, verður haldin svokölluð „opin æfing“ í Félagsheimilinu á Hólmavík. Þá gefst fólki færi á að kíkja á æfinguna, fylgjast með, fá sér kaffi, spjalla við leikara og fá stemmninguna beint í æð. Æfingin hefst kl. 20:00 og allir áhugasamir Strandamenn og gestir þeirra eru hvattir til að kíkja á svæðið.

Viltu finna milljón er farsi eins og þeir gerast bestir, hraðastir og og flóknastir. Verkið naut gríðarlegra vinsælda í Borgarleikhúsinu fyrir fáum árum, en Leikfélag Hólmavíkur er aðeins annað áhugaleikfélagið á landinu sem tekur verkið til sýninga. Leikstjóri í uppsetningu Leikfélagsins er Arnar S. Jónsson.