22/11/2024

Opið hús hjá Hornsteinum

Haraldur V.A. Jónsson og Jón Gísli Jónsson eigendur HöfðaÁ dögunum var opið hús í nýju parhúsi að Miðtúni 13 á Hólmavík, en sú íbúð er nú fullfrágengin og til sölu. Verði hún ekki seld fyrir lok júní mun hún fara í leigu. Það er félagið Hornsteinar ehf sem stóð fyrir byggingunni, en það var stofnað árið 2007 í þeim tilgangi að standa fyrir nýbyggingum á svæðinu til sölu eða útleigu. Að félaginu standa Kaupfélags Steingrímsfjarðar, Hólmadrangur ehf, Sparisjóður Strandamanna og Trésmiðjan Höfði ehf sem sér um framkvæmdir á vegum félagsins. Fyrsta verkefnið var parhúsið að Miðtúni 11-13 á Hólmavík og er íbúðin að Miðtúni 11 þegar seld. Félagið sótti einnig um lóð að Miðtúni 15-17 undir samskonar hús, en bygging á því er ekki hafin.

Aðstandendur félagsins sjá fyrir sér að það muni á komandi árum, auk smíði og rekstrar íbúðarhúsnæðis, koma að skipulagningu, byggingu, sölu og jafnvel útleigu sumarhúsa og byggingu og útleigu atvinnuhúsnæðis. Þörf fyrir uppbyggingu á nýju húsnæði er talin vera undirliggjandi á svæðinu, þótt að eftirspurn á hverjum tíma geti auðvitað sveiflast nokkuð. Í upphafi hefur félagið ekki burði til að eiga mikið af húsnæði og verður eftirspurn á hverjum tíma því að ráða framkvæmdahraða og stefnan er einnig sú að bjóða allt húsnæði til sölu fyrst um sinn, en byggja ekki í þeim tilgangi að leigja. Félagið mun einnig fara þá leið að undirbúa verkefni og kynna mismunandi stærðir og gerðir húsnæðis fyrir áhugasömum aðilum og að einhverju leyti tryggja sölu áður en ráðist er í framkvæmdir.

Félagið er í samstarfi við LIBA ehf sem flytur inn eistnesk einingahús og hefur upp á að bjóða fjölbreytt úrval húsa. Teikningar eru fyrirliggjandi.

Áhugasömum er bent á að leita til Jóns E. Alfreðssonar stjórnarformanns í síma 455-3100 varðandi kaup á húsnæði. Einnig veitir Jón Gísli Jónsson hjá Trésmiðjunni Höfða ehf upplýsingar varðandi byggingarnar í síma 661-7061. Teikningar eru fyrirliggjandi hjá báðum þessum aðilum.

Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is leit við á opna húsið og smellti af myndum, en aðsókn var góð og fjöldi manns leit við til að skoða húsnæðið.

Miðtúnið

frettamyndir/2008/580-midtunid4.jpg

frettamyndir/2008/580-midtunid6.jpg

frettamyndir/2008/580-midtunid2.jpg

Miðtún 13 – ljósm. Jón Jónsson