Aðsend grein: Jón Halldórsson
Tæpt ár er síðan það var vart þverfótað fyrir frambjóðendum og bæklingum frá þeim um allskonar mál sem þeir höfðu fram að færa, og loforð þeirra og tímaröðun á þeim málaflokkum sem þeir vildu fá í gegn sem voru að margra áliti mjög trúverðugir á þessum loforða tímapunkti. Þess vegna rita ég þessar línur þ.e. til að minna þá á þann loforðaflaum sem einungis var kominn frá þeim sjálfum, þingmönnum Norðvesturskjördæmis, og engum öðrum.
Ferðaþjónusta og vegaslóðar
Samgöngur á Vestfjörðum hafa alltaf verið að batna og með betri og bættari samgangnaneti batnar margt s.s. betra aðgengi á ferðaþjónustustaði sem hafa verið að ryðja sér til rúms á síðustu árum með góðum árangri. Til þess að gera ferðaþjónustuna enn áhugaverðari, þarf að taka til hendinni í því sem snýr að heilsárstengingu í vegamálum á Vestfjörðum. Ferðaþjónustan er sú starfsgrein sem mun vaxa í náinni framtíð, ef rétt er haldið á þeim spilum sem hafa verið gefin, og á eftir að gefa á næstu árum.
Betra aðgengi að þeim stöðum sem hafa verið vinsælir sem göngustaðir ferðamanna er hægt að gera mun áhugaverðari en nú er með sáralitlum kostnaði. Þá er ég að tala um að gera jeppaslóða inn að Drangajökli í Kaldalóni, sem væri ekki mikið mál og þægileg slóðagerð. Lítið sem ekkert rask á landi, melar og lækjarsprænur er það eina sem þyrfti að huga að í þessari paradís norðursins. Og áfram með ferðaþjónustuna og jeppaslóðana. Fram Undaðsdalinn er gamall slóði sem nær upp á Dalsheiði. Ef til vill nær hann yfir á Öldugilsheiði sem er upp af Leirufirði. Þessi jeppaslóði er u.þ.b. 10-12 km, þ.e. frá Unaðsdal og yfir að brún í Leirufirði.
Að lauslega athuguðu máli væri þetta kjörinn vettvangur fyrir allt og alla, til að laga og bæta þann vegarslóða sem er nú er til staðar, en er nánast ófær öllum bílum vegna drullu og stórgrýtis. Ekki ætti að vera mikið mál að fá fjármuni í þessar lagfæringar, annað eins hefur verið bruðlað með fé landsmanna á síðustu árum. Ég legg til að menn leggist yfir þessar hugmyndir mínar og komi þeim á koppinn sem allra fyrst.
Samgöngur
Fyrst skal nefna Arnkötlu- og Gautsdalaleið, sem er á efa framtíðarsamgönguleið okkar Vestfirðinga með styttingu um 42 km eða 84 km fram og til baka, sem er ekki lítið. Það myndi t.d. stytta leiðina milli Ísafjarðar og Reykjavíkur um 42 km fyrir utan þann tíma sem sparast og sem er ekki lítill þegar á heildina er litið. Eftir því sem mér hefur verið sagt, liggur ákvörðun um hvort farið verður í þessa framkvæmd, alfarið hjá þingmönnum Norðvesturkjördæmis, og engum öðrum.
Ég vil segja við þá sem náðu kjöri til þingsetu við Austurvöll og eiga rúm þrjú örugg ár eftir þar inni, ef Guð lofar: Það er ekki nóg að lofa okkur gulli og grænum og flottum skógum, korteri fyrir kosningar og síðan ekki söguna meir. Það heyrist ekki hósti né stuna frá 80% þingmanna kjördæmisins, um eitt né neitt. Það eru einungis 20% þeirra sem kjörnir voru á þing fyrir þetta kjördæmi sem láta sjá sig á mínu svæði, sem er Hólmavík. Hinir eru týndir og tröllum gefnir.
Á sameiginlegum framboðsfundi sem haldinn var í Félagsheimilinu á Hólmavík viku fyrir síðustu alþingiskosningar, voru nánast allir frambjóðendurnir sammála því að koma Arnkötlu- og Gautsdalaleið inn í flýtiáætlun í endurskoðaðri vegaáætlun, eins og gert var á sínum tíma þegar tekin var ákvörðun um að taka Steingrímsfjarðarheiðina inn í sérstaka flýtiáætlun sem kennd var við Inndjúps-áætlun. Samgönguráðherra á þeim tíma var enginn annar en Steingrímur Hermannsson. Það er honum alfarið að þakka að við höfum veg um Steingrímsfjarðarheiði í dag. En hver er samgönguráðherra í dag? Er það ekki ráðherra sem situr í okkar kjördæmi? Jú, það er aldeilis rétt. Er ekki kominn tími til að ráðherrann, Sturla Böðvarsson, tileinki sér góðan minnisvarða og taki ákvörðun um það strax og komi með þá fjármuni sem til þarf til að vega Arnkötlu- og Gautsdali, eins og var gert með Steingrímsfjarðarheiðina í apríl 1980.
Þá var Steingrími Hermannssyni, þáverandi samgönguráðherra sent svohljóðandi bréf með fyrirsögninni: Áskorun til samgönguráðherra og þingmanna Vestfjarðakjördæmis í apríl 1980:
„Við undirrituð, íbúar Strandasýslu, skorum hér með á samgönguráðherra og þingmenn kjördæmisins að taka nú þegar til greina óskir okkar um vegalagningu um Steingrímsfjarðarheiði, og þar með tengingu Strandasýslu við aðra hluta Vestfjarða.“
Þessi áskorun sem er síðan 1980 smellpassaði eins og flís við rass og virkaði vel á alla kanta árið 1980. Þessi áskorun hlýtur að virka vel í dag við Arnkötlu- og Gautsdalaleið. Samgönguráðherrann eigum við. Hvað er þá í veginum? Ekki neitt. Hvað er það þá sem við þurfum? Það er viljinn og áhuginn sem þarf, ekkert annað. Svo einfalt er það, punktur.
Það er líka annað sem þingmenn kjördæmisins verða að taka mark á. Það eru þær fjölmörgu samþykktir bæjar- og sveitarstjórna og annarra samtaka og áhugamannafélaga, um þessa nauðsynlegu framkvæmd sem skilar einungis hagnaði fyrir þann sem mun nota og njóta um ókomna framtíð.
Ef þessi 42 km stytting væri á þjóðvegi 1
Ef þessi 42 km stytting væri á þjóðvegi 1, væri fyrir löngu búið að samþykkja hana af þeim þingmönnum sem búa í því kjördæmi. Í fréttum RÚV þann 2. apríl sl. var sagt frá tillögu frá Halldóri Blöndal, þingmanni og fleirum um að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um liðlega 40 km, um Arnarvatnsleið. Þessi tillaga Halldórs er komin til umræðu á hinu háa Alþingi, en ekkert hefur heyrst af nokkurri tillögu frá þingmönnum Norðvesturkjördæmis um að taka ákvörðun um vegarlagningu um Arnkötlu- og Gautsdali. Það heyrðist síðast rétt fyrir alþingiskosningarnar sem haldnar voru á vormánuðum 2003.
Ég verð að spyrja: Hver þessara tíu alþingismanna Norðvesturkjördæmis segir satt og hver segir ósatt um hvort og hvenær við getum farið að keyra um Arnkötlu- og Gautsdali? Verður það eftir 2, 3, 4 eða 5 ár? Fáum við kannski svörin eins og síðast, korteri fyrir kosningar? Þá voru þingmennirnir miklir já-menn. Hvernig er með já-in í dag? Svar óskast.
Jón Halldórsson, Hólmavík.
Grein þessi var áður birt á BB-vefnum síðasta vor. Höfundur er áhugamaður um skýr og greinargóð svör og því endurbirtum við greinina hér í heilu lagi, en einnig óskar höfundur eftir umræðu um hana á spjalltorginu.