Aðsend grein: Stefán Gíslason
Ég var spurður að því um daginn hvernig væri hægt að meta hættuna á meiri háttar olíuslysi út af Vestfjörðum vegna olíuflutninga til hugsanlegrar olíuhreinsistöðvar í Arnarfirði, jafnvel svo stóru olíuslysi að jafnaðist á við Exxon Valdez-slysið við Alaska 1989. Svarið fer hér á eftir, spyrjanda og öðrum til fróðleiks, en kannski ekki skemmtunar.
Aðferðafræði
Það eru til ýmsar mismunandi aðferðir til að meta áhættu, en mér finnst liggja beinast við að beita sömu aðferðafræði og gert er ráð fyrir í drögum að staðlinum ISO 31000, sem er staðall fyrir áhættustjórnun. Þessi staðall er enn í smíðum og verður væntanlega gefinn út snemmsumars 2009. Staðallinn er m.a. byggður á ástralska áhættustjórnunarstaðlinum AS/NZS 4360:1999.
Áhætta er í rauninni einhvers konar margfeldi af líkindum og afleiðingum. Erfitt er að gefa þessum fyrirbærum ákveðin talnagildi, og því er yfirleitt byggt á flokkun eða einkunnagjöf, t.d. á bilinu 1-5. AS/NZS 4360:1999 skiptir líkindum í flokka eins og sýnt er í einfölduðu formi í eftirfarandi töflu:
Líkindi | |
Stig | Lýsing |
A | Nær öruggt |
B | Líklegt |
C | Mögulegt |
D | Ólíklegt |
E | Fátítt |
Á sama hátt skiptir ástralski staðallinn afleiðingum í flokka eins og hér er lýst:
Afleiðingar | |
Stig | Lýsing |
1 | Óverulegar |
2 | Minni háttar |
3 | Í meðallagi |
4 | Meiri háttar |
5 | Hamfarir |
Við áhættumat er gjarnan notuð tafla (stundum nefnt fylki eða teningar) til að greina tiltekna áhættu og ákveða mikilvægi þess að grípa til aðgerða hennar vegna. Eins og sjá má er taflan samsett úr hinum tveimur.
Líkindi | Afleiðingar | ||||
Óverulegar 1 |
Minni háttar 2 |
Í meðallagi 3 |
Meiri háttar 4 |
Hamfarir 5 |
|
A (Nær öruggt) | H | H | A | A | A |
B (Líklegt) | M | H | H | A | A |
C (Mögulegt) | L | M | H | A | A |
D (Ólíklegt) | L | L | M | H | A |
E (Fátítt) | L | L | M | H | H |
A = afar há áhætta; krefst tafarlausra aðgerða
H = há áhætta; krefst sérstakrar athugunar
M = meðal áhætta; tilgreina þarf skiptingu verka og ábyrgðar
L = lág áhætta; hefðbundnir verkferlar duga
Fremur auðvelt er að flokka þá áhættu sem hér um ræðir, þ.e.a.s meiri háttar olíuslys við Vestfirði, með þeirri aðferðafræði sem hér er lýst. Líkurnar hljóta að vera afar litlar, en þó til staðar (>0). Líkurnar eru með öðrum orðum í flokki E (fátítt). Afleiðingarnar yrðu hins vegar gríðarlegar og myndu vafalítið tilheyra flokki 5 (hamfarir). Atburður af þessu tagi lendir samkvæmt þessu neðst til hægri í greiningartöflunni sem „há áhætta sem krefst sérstakrar athugunar“.
Umræða um líkur
Áhættumat er aldrei hafið yfir gagnrýni. Í því dæmi sem hér um ræðir má þó telja nær víst að almenn samstaða næðist um flokkun samkvæmt framanskráðu. Hvað líkurnar varðar, þá nægir að benda á að slys af þessu tagi verða mjög sjaldan, en eiga sér þó stað. Ýmsir þættir hafa áhrif á líkurnar, svo sem gerð skipa, færni áhafna, veður, sjólag, straumar, hafís og umferð annarra skipa. Líklega eru líkurnar nokkru meiri við Vestfirði en á heimshöfunum að meðaltali, þar sem veður eru oft válynd vestra og einhver hætta á hafís. Það réttlætir þó tæplega að færa áhættuna upp í líkindaflokk D (ólíklegt).
Umræða um afleiðingar
Sömuleiðis má ætla að almenn samstaða næðist um flokkun afleiðinganna samkvæmt framanskráðu. Reyndar ráðast afleiðingarnar af ýmsum þáttum, svo sem magni, tegund og þykkt olíunnar, aðstæðum til björgunar, hitastigi sjávar, fjarlægð frá ströndum, dýra- og plöntulífi svæðisins og mikilvægi ferðaþjónustu og sjávarnytja fyrir aðliggjandi samfélög. Hvað magn olíu varðar, má ætla að árlega myndu verða fluttir til Arnarfjarðar um 100 skipsfarmar af hráolíu með um 80.000 tonn í hverju skipi. Svipað magn þarf síðan að flytja aftur á brott, en e.t.v. í fleiri og smærri förmum. Afleiðingar slyss gætu verið mjög mismunandi eftir því hvort skipið er á leið til olíuhreinsistöðvarinnar eða frá henni, þar sem framleiðsluvörurnar eru væntanlega eitraðri en um leið rokgjarnari en hráolían.
Í spurningunni sem vitnað var til í upphafi þessarar samantektar, var sérstaklega minnst á Exxon Valdez-slysið 1989, enda er það vafalítið umtalaðasta olíuslys síðari ára. Ekki er hægt að slá því föstu að Exxon Valdez-slysið sé dæmigert fyrir slys sem gætu orðið út af Vestfjörðum, þó að hver skipsfarmur innihaldi að öllum líkindum svipað magn af olíu. Umrætt slys varð fyrir 19 árum, og síðan þá hefur olíuskipaflotinn í heiminum verið endurbættur verulega. Hins vegar er hitastig sjávar og vistfræðilegar aðstæður á Vestfjarðamiðum væntanlega líkari því sem gerist við strendur Alaska en úti fyrir ströndum Frakklands og Spánar, þar sem einnig hafa orðið stór olíuslys á allra síðustu árum, svo sem Prestige-slysið 19. nóvember 2002. Reyndar var Prestige-slysið stærra en Exxon Valdez-slysið í lítrum talið, og líklega einnig hvað varðar fjárhagslegan skaða.
Til að gefa einhverja mynd af hugsanlegum afleiðingum fara hér á eftir nokkrir punktar varðandi Exxon Valdez-slysið:
Slysið varð þann 24. mars 1989, þegar olíuskipið Exxon Valdez strandaði við strendur Alaska (Prince William Sound). Um 41 milljón lítra af hráolíu rann í sjóinn og til varð um 28.000 ferkílómetra olíuflekkur. Heildarflatarmál flekksins samsvaraði þannig rúmum fjórðungi af flatarmáli Íslands. Aðstæður til björgunar voru erfiðar, m.a. vegna fjarlægða. Bandaríska landhelgisgæslan stjórnaði aðgerðum, og samtals unnu um 11.000 íbúar nærliggjandi héraða að hreinsun. Olíu rak upp á u.þ.b. 1.600 km langa strandlengju, en til samanburðar má nefna að hringvegurinn um Ísland er 1.334 km. Talið er að 250.000-500.000 sjófuglar hafi drepist vegna slyssins, auk um 1.000 sæotra, nokkur hundruð sela, 250 skallaarna o.fl. Einnig drápust milljarðar síldar- og laxahrogna. Áhrifa slyssins gætir enn í dag. Nokkrar dýrategundir á svæðinu hafa ekki enn náð fyrri stofnstærð, en vísindamenn telja að svæðið verði komið nokkurn veginn í samt lag þegar 30 ár verða liðin frá slysinu. Árið 2007 var áætlað að enn væru til staðar um 98.000 lítrar af olíu á nærliggjandi strandsvæðum, en magnið er talið minnka um u.þ.b. 4% á ári.
Ýmsar tölur hafa heyrst varðandi fjárhagslegt tjón vegna slyssins, sú hæsta líklega um 5 milljarðar dollara (um 400 milljarðar íslenskra króna). Útilokað er að gefa upp endanlega rétta tölu, en þess má geta að kostnaður Exxon vegna hreinsunarstarfs var um 2 milljarðar dollara, auk þess sem félagið greiddi samtals um 1 milljarð dollara í ýmsar sektir og skaðabætur vegna slyssins, dæmdar og umsamdar, þ.á.m. til samtaka fiskframleiðenda á svæðinu. Enn eru flókin málaferli í gangi varðandi skaðabótaskyldu o.fl. Of langt mál yrði að tíunda allar óbeinar afleiðingar slyssins, en þær hafa bæði verið pólitískar og efnahagslegar. Slysið hafði mikil áhrif á alla umræðu um vinnslu og flutninga á olíu, en það hefur jafnframt haft í för með sér mikið tekjutap fyrir ferðaþjónustuna. Þá hefur tilvistarvirði svæðisins lækkað, en með því er átt við mat almennings á verðmæti svæðisins, burtséð frá markaðsvirði.
Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur
Tengdar greinar á strandir.saudfjarsetur.is:
Stefán Gíslason: Orkunotkun olíuhreinsistöðva 20/2 2008
Stefán Gíslason: Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva 23/4 2007