Ólafsdalshátíð verður haldin í Ólafsdal í Gilsfirði sunnudaginn 10. ágúst. Tilefnið er að um þessar mundir eru 170 ár liðin frá fæðingu Torfa Bjarnasonar, sem jafnan er nefndur Torfi í Ólafsdal (f. 28. ágúst 1838). Þar stofnaði hann árið 1880 fyrsta búnaðarskóla á Íslandi og rak hann fram til 1907 ásamt Guðlaugu Sakaríasdóttur konu sinni. Ætlunin er að þessi dagur marki upphaf á endurreisn Ólafsdals sem frumkvöðlaseturs með lifandi starfsemi á vettvangi ferðaþjónustu, mennningar, sjálfbærrar nýtingar og fræðslu.
Á hátíðinni sem hefst kl. 14:00, verður undirrituð viljayfirlýsing milli landbúnaðarráðuneytisins og Ólafsdalsfélagsins ses um að félagið fái umsjón með jörðinni í Ólafsdal. Jafnframt að félagið fái leyfi til framkvæmda við endurbætur á skólahúsinu í Ólafsdal, sem staðið hefur ónotað í um 30 ár, og öðrum byggingum í nágrenni þess.
Einar Kristinn Guðfinnsson landbúnaðarráðherra hefur boðað komu sína í Ólafsdal af þessu tilefni. Einnig verður öðrum ráðherrum boðið, þingmönnum kjördæmisins og ýmsum fleiri gestum. Jafnframt eru íbúar Dalabyggðar, Reykhólahrepps og annarra nærliggjandi sveitarfélaga hvattir til að koma, sem og afkomendur Torfa og Guðlaugar í Ólafsdal, gamlir nemendur úr Menntaskólanum við Sund og aðrir sem áhuga hafa. Ólafsdalshátíðin er styrkt af Menningarráði Vesturlands.
Á hátíðinni mun formaður Ólafsdalsfélagsins, Rögnvaldur Guðmundsson, gera stutta grein fyrir stofnun félagsins, stöðu mála og framtíðaráformum. Bjarni Guðmundsson prófessor við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og forstöðumaður Landbúnaðarsafns Íslands ses. flytur erindi um áhrif Ólafsdalsskólans á landsvísu og Jón Jónsson, þjóðfræðingur og menningarfulltrúi Vestfjarða, spjallar um tengsl skólans og Strandamanna með ýmsum útúrdúrum. Einar K. Guðfinnsson landbúnaðarráðherra og fleiri munu einnig flytja ávörp.
Þá verður í boði leiðsögn um skólahúsið í Ólafsdal og nágrenni þess, sem er ríkt af sögu og minjum frá tímum Torfa Bjarnasonar og þeirra hjóna. Jafnframt gefst gestum kostur á veitingum á góðu verði.
Fyrr um daginn verður aðalfundur í Ólafsdalsfélaginu (áhugamannafélagi) haldinn að Tjarnarlundi í Saurbæ, en félagið var stofnað í Ólafsdal 3. júní í fyrra. Jafnframt verður þar haldinn stofnfundur í Ólafsdalsfélaginu ses (sjálfseignarstofnun) þar sem ýmsum hefur verið boðin stofnaðild. Áhugamannafélagið mun þó starfa áfram og tilnefnir helming fulltrúa í fulltrúaráð Ólafsdalsfélagsins ses. Félagið hefur skráð lénið www.olafsdalur.is sem verður virkjað á næstu vikum.
Ólafsdalsfélagið hefur látið gera samantekt um líklegan kostnað við að gera upp hið myndarlega skólahús í Ólafsdal, sem byggt var árið 1896. Þá er unnið að samstarfsyfirlýsingu milli Ólafsdalsfélagsins og Landbúnaðarháskólans og Landbúnaðarsafns Íslands á Hvanneyri og verið er að skoða samvinnu við aðrar menntastofnanir á Vesturlandi og víðar. Þá fékkst nokkur styrkur á fjárlögum til að undirbúa endurbætur á skólahúsinu og auk þess upphafsframlag frá sveitarfélaginu Dalabyggð. Ólafsdalsfélagið stefnir að því að ná frekari samningum við ríkisvaldið um aðkomu að endurreisn Ólafsdals og jafnframt að fá einkaaðila til að leggja málinu lið, ásamt sveitarfélaginu Dalabyggð og fleirum.
Stjórn Ólafsdalsfélagsins skipa nú:
Rögnvaldur Guðmundsson, ferðamálafræðingur, formaður
Arnar Guðmundsson, blaðamaður
Guðjón Torfi Sigurðsson, kennari
Halla Steinólfsdóttir, bóndi og varaoddviti Dalabyggðar
Laufey Steingrímsdóttir, matvælafræðingur
Sigríður Jörundsdóttir, sagnfræðingur
Sumarliði Ísleifsson, sagnfræðingur
Svavar Gestsson, sendiherra
Þórður Magnússon, rekstrarhagfræðingur
Áhugasömum um málefni Ólafsdals er bent á að hafa samband við Rögnvald Guðmundsson, formann Ólafsdalsfélagsins, í netfanginu rognv@hi.is eða í síma 693 2915.