22/12/2024

Og það varð ljós!

Búið er að koma veðraskiltinu við vegamótin við Hrófá í gagnið, en það segir til um veður á nýja veginum um Arnkötludal. Í gær var starfsmaður Vegagerðarinnar eitthvað að bauka við skiltið og í morgun lýsti það upp veröldina með veðurupplýsingum, vegfarendum öllum til gleði og yndisauka. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is tók mynd af skiltinu í myrkrinu í morgun þessu til sönnunar. Það vakti eilitla undrun að þá kom ekki fram á skiltinu að vegurinn um Arnkötludal væri ófær, eins og sagði á vef Vegagerðarinnar í morgun. Það hlýtur þó að vera bara smávægilegt stillingaratriði sem verður sjálfsagt kippt í lag í hvelli. 

Fyrri fréttir um veðraskiltið góða:

16. september 2011: Veðraskilti við Hrófá
20. janúar 2012: Nýja ljósaskiltið enn ekki komið í gagnið

Veðraskiltinu komið í gagnið – ljósm. Jón Jónsson