30/10/2024

Of(s)ein – leiksýning á Ströndum

Nú í endaðan júlímánuð er framundan frumsýning á Hólmavík, en það er listahópurinn Strandir í verki sem sýnir frumsamið nútíma verk. Leikþátturinn OF(S)EIN er stuttverk eftir listahópinn sjálfan og leikarar eru Alma Lind Ágústsdóttir og Bára Örk Melsted. Verkið er frumsýnt fimmtudaginn 26. júlí kl. 20 í Félagsheimilinu á Hólmavík og aðrar sýningar eru mánudaginn 30. júlí kl. 20 og miðvikudaginn 1. ágúst kl. 20. Aðgangur að sýningunni er ókeypis, en frjáls framlög eru vel þegin. Athugið að sýningin hentar ekki yngri börnum.

Strandir í verki er listahópur sem hefur verið starfandi í sumar á Hólmavík og er starfræktur á vegum Leikfélags Hólmavíkur í samvinnu við Strandabyggð, Sauðfjársetur á Ströndum og Rannsóknasetur HÍ á Ströndum. Leiðbeinandi hópsins er Rakel Ýr Stefánsdóttir og hún er jafnframt leikstjóri sýningarinnar.

Meðfylgjandi ljósmynd er frá þátttöku hópsins í Hamingjudögum þar sem stúlkurnar komu fram sem Strandanornir, sýndu frumsamin leikþátt og spáðu fyrir fólki.