Allir vegir á Ströndum eru nú ófærir samkvæmt korti Vegagerðarinnar og víða hefur snjóað mikið. Rafmagn fór af norðan Hólmavíkur í gær kl. 14:40, en komst á aftur 15:30 á Drangsnesi og Bjarnarfirði. Einnig tókst að koma rafmagni á aftur eftir línunni yfir Trékyllisheiði að Djúpavík og Bæ í Trékyllisvík þar sem línan kemur niður af Naustvíkurskörðum. Aðrir bæir í Árneshreppi eru straumlausir og báðar álmurnar frá Bæ að Gjögri og að Krossnesi eru úti. Vitað er um brotinn staur og slitna línu við Mela. Mikil ísing var á svæðinu og snjókoma. Skólahald fellur niður á Hólmavík í dag, en leikskólinn Lækjarbrekka mun opna þegar mokstur hefst innanbæjar.