Vegurinn norður í Árneshrepp á Ströndum er nú ófær samkvæmt vefsíðu Vegagerðarinnar og sama gildir um Steingrímsfjarðarheiði og Arnkötludal. Á síðarnefndu heiðunum er óveður og Arnkötludalurinn verður ekki opnaður í dag. Beðið er með mokstur á Steingrímsfjarðarheiði. Fært er frá Hólmavík suður Strandir um Ennisháls inn á hringveginn við Staðarskála í Hrútafirði. Björgunarsveitin Dagrenning hefur haft í nógu að snúast síðustu daga við að sækja fólk sem fest hefur bíla sína á veginum um Arnkötludal. Á laugardaginn varð óhapp þegar ekið var utan í bíl sem var fastur á veginum í mjög slæmu skyggni.