30/10/2024

Nýting jarðhita í Strandasýslu

150-opnun-sund-drangs4Jarðhiti er nýttur á nokkrum stöðum í Strandasýslu. Mest er nýtingin á Drangsnesi, en þar var fyrir áratug borað eftir heitu vatni með góðum árangri inni í þorpinu. Þar eru öll hús hituð upp með jarðhita og einnig sundlaug sem reist var þar og opnuð á síðasta ári. Sundlaugar, hitaðar með jarðhita, eru einnig á Dröngum (einkaeign), Krossnesi í Árneshreppi og við Laugarhól í Bjarnarfirði. Einnig er lítil baðlaug í Goðdal sem er í einkaeign. Nokkrir bæir eru hitaðir upp með jarðhita – Krossnes í Árneshreppi, Svanshóll og Klúka í Bjarnarfirði. Sumarhús í Goðdal eru einnig hituð með jarðhita. Á Bakka í Bjarnarfirði er varmadæla sem nýtir volgt vatn. Tekist hefur að bora eftir heitu vatni við Borðeyri en þar hefur ekki verið lögð hitaveita enn.

Víða um land er nú lagt mikið kapp á að ná upp heitu vatni fyrir þéttbýlisstaði. Tekist hefur að finna vatn á mörgum stöðum þar sem enginn jarðhiti var fyrir á yfirborði. Þar má nefna dæmi eins og Drangsnes og Eskifjörð.

Kirkjubólshreppur hafði forgöngu um að leita að jarðhita við sunnanverðan Steingrímsfjörð og var meðal annars borað í landi Þorpa úti á Gálmaströnd. Ljóst er að þar er 100-110°C heitt vatnskerfi á um 700-1000 m dýpi en ekki tókst í þeim áfanga að skera sprunguna sem heita vatnið er í. Jarðvísindamenn Íslenskra orkurannsókna eru hins vegar mjög bjartsýnir á að nægt vatn fáist út á Gálmaströnd til upphitunar á Hólmavík og bæjum í Tungusveit. Könnun á dýpstu borholunni hefur leitt í ljós að heita vatnið er að líkindum bundið við sprungur sem stefna norður-suður – í svipaða stefnu og uppstreymið við Drangsnes og í Hveravík í Steingrímsfirði.