22/12/2024

Nýr vegur í Hrútafjarðarbotni vígður

Samkvæmt frétt á ruv.is verður nýr vegur um Hrútafjarðarbotn vígður formlega á morgun, miðvikudag. Nýi vegurinn leysir af hólmi þann hluta hringvegarins sem lá austanvert í Hrútafirði, frá Brú, yfir Hrútafjarðará og Síká, og suður fyrir gamla Staðarskála. Hringvegurinn liggur nú eftir veglínu Djúpvegar norður fyrir Fögrubrekku þar sem hann þverar Hrútafjarðarbotninn með nýrri brú yfir Hrútafjarðará og endar við Brandagil rétt norðan við Stað. Vegamót Djúpvegar eru nú í fjarðarbotninum, 4 km, norðar en áður. Þar hefur verið reistur nýr Staðarskáli, en rekstri þess gamla hætt og Brúarskáli hefur verið rifinn.

Við þessa framkvæmd styttist vegalengdin milli Stranda og Norðurlands um tæpa 9 km. Þá er mikilvægur áfangi að við framkvæmdina færist einbreiða brúin yfir Síká út af hringveginum, en hún var síðasta einbreiða brúin á þjóðvegi 1 milli Reykjavíkur og Akureyrar.