22/12/2024

Nýr gestur í Skelinni og opið hús 30. nóvember

Þjóðfræðistofa verður með opið hús í Skelinni á Hólmavík þriðjudaginn 30. nóv. milli kl. 18.00-20.00. Þema þessa viðburðar er svæðisbundin matarmenning. Henry Fletcher sem nú dvelur í Skelinni fjallar stuttlega um sitt sérsvið sem er fæðuöflun í náttúrunni og eru heimamenn hvattir sérstaklega til að koma og kynna sína heimaframleiðslu, s.s. sultur, kleinur, lambakjöt, reykta rauðmaga, harðfisk, kæfu og jafnvel jólasmákökur. Á boðstólnum verður m.a. fiskisúpa, heimabakað brauð og kaffi á 1500 kr. og eru allir velkomnir.

Henry Fletcher er gestur í Skelinni sem er lista- og fræðimannadvöl Þjóðfræðistofu í Grímeyjarhúsi á Hafnarbraut 7 á Hólmavík, þar sem Hólmakaffi var til húsa síðastliðið sumar. Hann er hingað kominn til að kynna sér fjöruna á Ströndum og kynna fæðusöfnun í náttúrunni.

Henry hefur meðal annars sótt menntun í strandsvæðastjórnun á Háskólasetrinu á Vestfjörðum og hefur að markmiði að færa fólk í nánara samband við umhverfi sitt og náttúru. Í þessu skyni stendur hann fyrir fæðusöfnun og skapandi vettvangsferðum og hvetur fólk til að byggja upp sjálfsmynd sína í sterkum tengslum við náttúruleg öfl.

580-henry2 580-henry1

Umhverfislistaverk eftir Henry Fletcher í fjörunni á Kirkjubóli við Steingrímsfjörð – ljósm. Jón Jónsson