22/12/2024

Nýjar reglur um aukaframlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga

Kristján Möller, samgöngu- og
sveitarstjórnarráðherra, hefur gefið út reglur um úthlutun aukaframlags
Jöfnunarsjós sveitarfélaga til sveitarfélaga á árinu 2009, en þar er um að ræða einn milljarð sem skiptist á milli sveitarfélaga. Aukaframlaginu er
ætlað að bæta rekstrarstöðu sveitarfélaga á yfirstandandi ári en við ákvörðun um úthlutun
framlagsins var m.a. horft til ársreikninga sveitarfélaganna árið 2008. Með
hliðsjón af ýmsum breytingum sem orðið hafa í rekstrarumhverfi sveitarfélaga frá
síðasta ári, svo sem auknu atvinnuleysi og hærri fjármagnskostnaði, hefur reglum
um úthlutun framlagsins í ár verið breytt.

Helstu breytingar eru eftirfarandi:

Reglur um útreikning á framlagi til sveitarfélaga þar sem íbúafjöldi vex
minna en í Reykjavíkurborg eru einfaldaðar. Þá er tekið mið af þróun
heildartekna en ekki eingöngu útsvarstekna eins og áður. Þrátt fyrir breyttar
reglur er meginráðstöfun aukaframlagsins eins og áður til sveitarfélaga þar sem
íbúafjöldi hefur vaxið minna en í Reykjavíkurborg.

Bætt er við nýjum flokki
sem ætlað er að létta undir með svokölluðum vaxtarsveitarfélögum, þ.e.
sveitarfélögum þar sem íbúafjöldi hefur vaxið hraðar en í Reykjavíkurborg.
Forsendur fyrir úthlutun framlags eru að meðaltekjur á íbúa séu lægri en
meðaltekjur í  vaxtarsveitarfélögum árið 2009.

Framlag vegna sameininga
sveitarfélaga er breytt. Áfram verður veitt framlag til fjölkjarna sveitarfélaga
en almennt framlag vegna sameininga er fellt niður. Framlagið er veitt á
grundvelli gildandi reglna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga þar að lútandi, sbr. 13.
gr. reglugerðar nr. 113/2003.

Tekið er mið af jákvæðri peningalegri stöðu
sveitarsjóðanna samkvæmt ársreikningum 2008. Með peningalegri stöðu er á átt við
veltufjármuni og langtímakröfur að frádregnum skammtíma- og langtímaskuldum. 

Sveitarfélög sem ekki nýta hámarksútsvar á yfirstandandi ári fá ekki
aukaframlag.

Forsendur framlagsins

Aukaframlag 2009 er reiknað út með
hliðsjón af þremur viðmiðunum.

Í fyrsta lagi renna 700 m.kr. til
sveitarfélaga vegna þróunar íbúafjölda og heildartekna.

Annars vegar renna
450 m.kr. til sveitarfélaga þar sem vöxtur íbúafjölda hefur verið minni en  í
Reykjavík árin 2004 – 2008. Fundið er út fyrir hvert sveitarfélag hver fjölgun
íbúa hefði þurft að vera á umræddu tímabili til að sama hlutfallslega vexti og í
Reykjavíkurborg væri náð og er það grundvöllur úthlutunar. Hins vegar renna
250 m.kr. til viðkomandi sveitarfélaga þar sem þróun heildartekna á íbúa
sveitarfélaga er lægri en þróun heildartekna á landsvísu. Fundinn er út fyrir
hvert sveitarfélag mismunur á hlutfallslegri hækkun heildartekna sveitarfélaga á
landsvísu og hlutfallslegri hækkun heildartekna hvers sveitarfélags. Sá mismunur
er margfaldaður með íbúafjölda viðkomandi sveitarfélags 1. desember 2008 og er
það grundvöllur úthlutunar.

Í öðru lagi renna 210 m.kr. til sveitarfélaga þar
sem íbúaþróun hefur verið meiri en hjá Reykjavíkurborg árin 2004-2008. Framlag
er eingöngu veitt til þeirra sveitarfélaga sem hafa lægri meðaltekjur á íbúa
árið 2009 en reiknaðar meðaltekjur viðkomandi sveitarfélaga. Fundið er út fyrir
sveitarfélag hversu háa fjárhæð vanti til að ná meðaltekjum á íbúa og er það
grundvöllur úthlutunar.

Í þriðja lagi er 90 m.kr. varið til sveitarfélaga,
annarra en Reykjavíkurborgar, þar sem tekið er tillit til sérstakrar
útgjaldaþarfar sveitarfélaga sem halda þurfa úti þjónustu á fleiri en einum
þéttbýlisstað innan sveitarfélagsins. Við úthlutun framlagsins er byggt á reglum
um slík framlög sem er að finna í 2. mgr. og c-lið 13. gr. reglugerðar um
Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, nr. 113/2003

Skerðing vegna jákvæðrar
peningalegrar stöðu, heildartekjur og greiðsla framlags

Framlög vegna
íbúaþróunar, þróunar heildartekna og lágra meðaltekna  eru skert með hliðsjón af
peningalegri stöðu. Með peningalegri stöðu er átt við veltufjármuni og
langtímakröfur sveitarfélags í efnahagsreikningi 2008 að frádregnum skammtíma-
og langtímaskuldum þess. Ef útkoman er jákvæð koma 5% til skerðingar á
útreiknuðu framlagi.

Heildartekjur eru hámarks útsvarstekjur og
fasteignaskattstekjur miðað við  álagningu 2009 auk eftirtalinna framlaga
Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á yfirstandandi ári: Framlag til jöfnunar á
tekjutapi vegna fasteignaskatts, tekjujöfnunarframlag, útgjaldajöfnunarframlag
og almennt jöfnunarframlag til reksturs grunnskóla.

75% af framlaginu koma
til greiðslu nú þegar. Eftirstöðvar framlagsins verða greiddar í desember þegar
upplýsingar um tekjuforsendur ársins 2009 liggja fyrir og endurskoðun
framlagsins hefur farið fram.