22/12/2024

Nú reynir á ríkisstjórnina. Sýnum viljann í verki

Aðsend grein: Kristinn H. Gunnarsson
Dómsmálaráðherra hefur kynnt tillögur nefndar, sem leggur til breytingar á fjölda, stærð og stjórn lögregluumdæma. Lagt er til að þeim fækki úr 26 í 15 og 7 þeirra verði svonefnd lykilumdæmi, en þar verða starfræktar sérstakar rannsóknardeildir. Sýslumannsembættin verði áfram 26 og verði bætt verkefnum við þau, sérstaklega við þau embætti, sem ekki munu lengur fara með lögreglustjórn, ef tillögurnar ná fram að ganga.

Ég tek undir þau markmið sem sett eru, að auka þjónustu lögreglunnar bæði almenna löggæslu og rannsóknir sakamála. Sólarhringsvakt víðar en nú er og sterkari rannsóknardeildir eru spor í rétta átt. Bætt fjarskipti og betri samgöngur gera það kleift að unnt er að samhæfa og stjórna starfi lögreglu á stærra svæði en áður var. Þess vegna er engin ástæða til þess að amast við áformum um breytingar.

Á þessu stigi er of snemmt að segja til um hvernig umdæmin verða nákvæmlega og hver þeirra verða lykilembætti. Mér þykir til dæmis Ísafjarðarembættið verða of lítið samkvæmt tillögunum til þess að vera lykilembætti með góðu móti og nauðsynlegt að stækka það. Fleiri athugasemdir hafa komið fram úr ýmsum áttum og best að kynna tillögurnar á þessu stigi áður en lengra er haldið. Fá fram ábendingar og athugasemdir og vinna svo úr því. Ég er sammála nefndinni sem gerir tillögurnar, að betra er að gera breytingarnar í fleiri skrefum en færri og ná fram breiðri samstöðu.

Málið mun koma fyrir Alþingi að lokum áður en nokkuð verður endanlega ákveðið, þar sem verulegar lagabreytingar þarf að gera. Það, sem mun að mínu mati, ráða mestu um hvort af breytingum verður í einhverjum mæli, er hvernig til tekst með stöðu sýslumannsembættanna, sérstaklega þeirra, sem ekki verða með lögreglustjórn. Nefndin sjálf leggur einmitt mikla áherslu á þetta og segir að mikilvægt sé að tilflutningur verkefna til embættanna verði samhliða breytingum á skipulagi löggæslunnar.

Þarna reynir á málið og fyrst og fremst á ríkisstjórnina. Verða menn tilbúnir til þess að færa verkefni frá stjórnsýslunni í Reykjavík út í embættin? Einboðið er að flytja verkefni frá embætti ríkislögreglustjóra til annarra embætta og þegar hefur dómsmálaráðherra ákveðið að nýta sér heimild í nýsettum lögum um fullnustu refsinga og ákveðið að innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar verði við embættið á Blönduósi.

Þessi ákvörðun er til fyrirmyndar, styrkir Blönduós verulega og er til þess fallin að skapa trú á því að alvara sé á bak við áformin um flutning verkefna. Þar koma að allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar og þeir verða að leggja sitt af mörkum hver og einn. Tillögurnar um skipan lögreglumálanna gefur einmitt tækifæri fyrir ríkisstjórnina og stjórnarliða til þess að sína viljann í verki. Það skiptir miklu máli að breytingarnar verði til þess að styrkja embættin á öllum svæðum.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður
www.kristinn.is