Í gær voru sjálfboðaliðar frá Leikfélagi Hólmavíkur og frá Grunnskólanum á Hólmavík í eldlínunni uppi á Steingrímsfjarðarheiði, en þar var þýskt kvikmyndatökulið statt til að taka upp nokkur atriði í heimildamyndina Nóttin langa (Die Längste Nacht). Það er fyrirtækið Gruppe 5 Film Pruduktion sem framleiðir myndina, en í henni er sýnt frá nokkrum svæðum á jörðinni og þeim afleiðingum sem hrap loftsteins, svipuðum þeim sem útrýmdi risaeðlunum, hefur á mannkynið. Leikararnir uppi á heiði í gær léku Frakka sem börðust áfram í fimbulkulda eftir að ísöldin hafði tekið völdin í Frakklandi. Meðal þess sem var tekið upp var æsileg ferð á handknúnum járnbrautarvagni, sorgleg sena eftir dauða einnar persónunnar og langar gönguferðir fólksins út í kalda óvissuna.
Líklegt er að myndin verði sýnd á amerísku rásinni Discovery Channel í júnímánuði næstkomandi, en einnig verður hún sýnd á fleiri erlendum stöðvum. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is var að sjálfsögðu uppi á heiði í gær og tók fullt af myndum af stemmningunni. Ekki náðust þó margar myndir af senunum sjálfum, enda var þá fréttaritarinn í hlutverki eins Frakkans, eins og allir hinir.
Þjóðverjarnir voru með heilmikið af upptökugræjum.
Magnús Rafnsson og Þórður Halldórsson rabba um örnefni á Steingrímsfjarðarheiði.
Úlfar Hjartarson var ánægður með stóra tækifærið í kvikmyndunum.
Hópurinn reynir að koma sér í karakter – loftsteinninn er lentur.
Mikill tími fór í tilfærslur og flutning á tækjabúnaði.
Magnús Bragason fékk aðalhlutverkið, hér er hann í karakter sem Frakkinn Henry.
Húfa, vettlingar, teppi og hlý klæði voru bráðnauðsynlegur búnaður.
Frönsk flóttakona með bros á vör.
Kjötbollurnar voru mörgum kærkomnar, enda margra stiga frost á heiðinni.
Jón Gústi Jónsson einbeittur á svip.
Stella Guðrún Jóhannsdóttir í búningi hinnar frönsku 11 ára gömlu Michelle.
Hópurinn stillti sér upp fyrir myndatöku áður en síðasta senan var tekin upp.
Ljósm. Arnar S. Jónsson