Sá skemmtilegi siður hefur skapast á Hólmavík að norskir vinir Hólmvíkinga frá vinabænum Hole koma færandi hendi með jólatré og afhenda það við hátíðlega athöfn. Að þessu sinni koma þrír fulltrúar með tréð frá Noregi og eru þar á ferðinni tveir unglingar ásamt fylgdarmanni. Þeir koma hingað til landsins laugardaginn 26. nóvember næstkomandi og kveikt verður á trénu við hátíðlega athöfn daginn eftir, fyrsta sunnudag í aðventu kl. 17:30 við Grunnskólann á Hólmavík. Þar mæta krakkar bæði úr Grunnskólanum og Leikskólanum Lækjarbrekku og eiga saman góða stund með öðrum gestum.