22/12/2024

Nokkur orð um furðubyggðastefnu

Sigurður AtlasonAðsend grein: Sigurður Atlason.
Alveg yrði ég æfur ef ég væri íbúi í Árneshrepp eftir skilaboð til þeirra í skýrslunni Vaxtarsamningur Vestfjarða sem unnin er af valinkunnum Vestfirðingum með aðstoð Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða að tilstuðlan byggðamálaráðuneytis.

Hvað gengur þessu fólki eiginlega til? Er það mögulegt að ekkert samband hafi verið haft við íbúa Árneshrepps um þær tillögur sem snúa beint að þeim? Á ég að trúa því að Árneshreppsbúar hafi skrifað undir það að áætlunarflug fari í framtíðinni í gegnum Ísafjörð?

Mér finnst þetta algerlega makalaus tillaga, sem virðist snúa eingöngu að þeirri endanlegu hugmynd byggðamálaráðherra að hvergi verði byggð á Vestfjörðum nema í kringum Ísafjarðarkaupstað.

Undanfarið hefur verið unnið af litlum mætti við endurgerð vegarins norður í Árneshrepp og í þessari skýrslu er lagt til að vegurinn verði skilgreindur sem ferðamannavegur, eins og hann hefur raunar verið skilgreindur undanfarin ár. Hvað þýðir það? Þýðir það að vegurinn sé gerður vegna mögulegs áhuga ferðamanna að fara þá leið? Það nægja greinilega ekki þarfir heimamanna í nútíma samfélagi. Gera skýrsluhöfundar sér ekki grein fyrir því að í Árneshreppi býr fólk sem hefur rétt á sömu þjónustu og aðrir íbúar landsins?

Að því sem ég kemst næst þá hafa þeir aurar sem farið hafa í uppbyggingu vegarins í Árneshrepp undanfarin ár ekki komið af hefðbundnu vegafé, heldur úr einhverjum ákveðnum sjóði þar sem fást peningar til að gera ferðamannaleiðir. Það segir mér bara það eitt að þó að vegurinn verði malbikaður og gerður þokkalegur fyrir árið 2016, þá muni íbúar Árneshrepps ekki geta farið um hann nema þá mánuði ársins sem ekki fellur á hann snjór eða skriður. Það segir mér líka að ástandið í samgöngumálum verði nákvæmlega eins og verið hefur frá því hreppurinn komst í vegasamband á sjöunda áratug 20. aldar. Nei annars, það verður verra, því á Gjögur verður ekki flogið þegar það verður ófært á Ísafjörð hinum megin á Vestfjarðakjálkanum.

Ofan á allt þá segir forsætisráðherra að þetta sé alvarleg skýrsla sem tekið verði mark á. Ef svo er þá verður fróðlegt að bera hana saman við skýrslu nefndar um sértækar aðgerðir vegna byggðar í Árneshreppi sem sett var saman að tilstuðlan forsætisráðuneytis til að koma byggðinni þar til aðstoðar og framdráttar.

Ég ætla rétt að vona að forsætisráðherra hafi ekki verið búinn að lesa skýrsluna þegar hann viðhafði þessi orð, því það er hneyksli að þær tillögur í Vaxtarasamningi Vestfjarða sem koma að Árneshreppi, skuli snúa að því að byggð í kaupstaðnum Langtíburtistan við Ísafjarðardjúp, sem er nánast í öðrum landshluta, eigi að hagnast sérstaklega á áætlunarflugi á Gjögur, á kostnað heimamanna.

En það er kannski engin furða þegar stjórnvöld stefna að því einu að etja saman landsbyggðarfólki með því að búa til þessa byggðakjarna og leyfa þeim að éta það sem úti frýs sem ennþá hugnast að búa utan höfuðborgarsvæðis og hinna verndarsvæðanna fimm í landinu.

Ég bara skil þetta ekki, enda er þetta gjörsamlega óskiljanlegt.

Sigurður Atlason