Aðsend grein: Magnús Ólafs Hansson
Á svæðinu norðan Ísafjarðardjúps eru níu neyðarskýli sem hafa verið í umsjá slysavarnafólks við Djúp. Skýli þessu eru í Hrafnsfirði og á Sléttu í Jökulfjörðum, á Sæbóli og Látrum í Aðalvík, í Fljótavík, Hlöðuvík, Hornvík, Barðsvík og Furufirði. Raunar er tíunda skýlið í Skjaldabjarnarvík á Ströndum, en það er í umsjá Hólmvíkinga.
Á Hornströndum fór byggð í eyði kringum 1960. Segja má að neyðarskýli Slysavarnafélags Íslands hafi verið svar við því, að hraktir skipbrotsmenn nutu ekki lengur aðhlynningar fólksins sem þarna bjó. Öll voru skýli Slysavarnafélagsins búin neyðartalstöðvum. Þar voru einnig matvæli, sjúkragögn, skjólfatnaður, teppi og svefnpokar.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að kuldi og vosbúð gátu leikið skipbrotsmenn grátt. Því voru skýlin einnig búin góðum hitunartækjum og séð um að ljósmeti, kol og brenni væri ávallt fyrir hendi. Þá voru og í skýlunum upplýsingar sem að gagni máttu koma.
Á fyrstu árum neyðarskýlanna á þessum stöðum voru þau mikið notuð, eins og sést af skráningum í gestabækur. Að sumarlagi hafa ferðamenn nýtt sér skýlin talsvert og hefur það nokkuð verið gagnrýnt.
Frumkvöðull að smíði skýlanna í Hornstrandafriðlandi og Jökulfjörðum var Daníel Sigmundsson á Ísafirði, sem átti mikið og gott samband og samstarf við þáverandi framkvæmdastjóra Slysavarnafélags Íslands, Hannes Hafstein. Blessuð sé minning þeirra beggja.
Fyrsta skipbrotsmannaskýlið á Íslandi var hins vegar byggt af Ditlev Thomsen, ræðismanni Þjóðverja hérlendis, á Kálfafellsmelum á vestanverðum Skeiðarársandi. Skýlið kostaði hann úr eigin vasa árið 1904. Einnig lét hann smíða skýli í Ingólfshöfða á sinn kostnað.
Nú er svo komið, að mörg neyðarskýli félagseininganna við Djúp eru orðin bágborin vegna viðhaldsleysis. Þar má t.d. nefna skýlin í Hrafnsfirði, Barðsvík og Hlöðuvík. Segja má að komin sé upp sú staða, að tilvist skýlanna geti hreinlega verið til ógagns fremur en hitt.
Ekki náðist samstaða meðal félagseininganna við Djúp þegar Slysavarnafélagið Landsbjörg ákvað að færa neyðarskýlin alfarið á slysavarnafólk heima í héraði. Núna sér slysavarnafólk á Skagaströnd þess vegna um skýlið í Furufirði. Þegar þetta er skrifað eru skýlin í Hrafnsfirði og Barðsvík án eftirlitsaðila hér. Hin síðari ár hefur stundum verið í umræðunni að fækka þessum neyðarskýlum til að draga úr rekstrarkostnaði.
Neyðarskýlin voru í mörgum tilfellum gefin til minningar um látið fólk. Jafnframt voru þau reist sem minningar- og þakklætisvottur til fólks sem hafði látið að sér kveða í slysavarnastarfinu.
Árið1993 var gert mikið átak í að hanna og smíða nýja gerð neyðarskýla fyrir Slysavarnafélag Íslands. Nýtt skýli var gert úr trefjaplasti og var hugmyndasmiðurinn að því Jón Guðbjartsson, þáverandi formaður Björgunarsveitarinnar Ernis í Bolungarvík. Það var hugmynd hans að skýlið yrði nær viðhaldsfrítt til að minnka viðhaldskostnað og einfalda eftirlit og umsjón. Reyndar komu upp vandkvæði með loftræstingu, sem bætt hefur verið úr þar sem þurfti.
Á fundi eftir að Neyðarskýlanefnd Slysavarnafélags Íslands var lögð niður á sínum tíma lagði ég til að slysavarnafólk við Djúp sameinaðist um eina neyðarskýlanefnd fyrir svæðið og tæki sameiginlega þátt í endurbyggingu skýlanna. Því miður gekk það ekki eftir. Ég taldi og tel enn, að það hafi verið misráðið. Ég sá fyrir mér að fá að rekstri skýlanna fleiri aðila sem hafa bein afnot af þeim, svo sem útivistarfélög, aðila í ferðaþjónustu, Umhverfisstofnun, landeigendur og fleiri eftir atvikum.
Er ekki kominn tími til að „eigendur“ neyðarskýlanna og aðrir hagsmunaaðilar ásamt landeigendum skipi með sér a.m.k. fimm manna hóp til að fara yfir stöðu skýlanna í Jökulfjörðum, Aðalvík, Fljótavík og á Hornströndum?
Þá yrði það jafnframt skoðað, hvort ráðamönnum Hornstrandafriðlands þyki skynsamlegt að viðhalda þeim húsakosti neyðarskýla sem fyrir hendi eru á svæðinu, farga honum eða jafnvel að byggja ný skýli. Og þá jafnframt hver ætti að standa undir kostnaðinum.
Magnús Ólafs Hansson, Bolungarvík, félagi í SVFÍ.