22/11/2024

Náttúrubörn, furðuleikar og fjör í Sævangi

Furðuleikar trjónufótbolti

Mikið um að vera á Sauðfjársetrinu í Sævangi í tengslum við bæjarhátíðina Hamingjudaga á Hólmavík, sem haldnir verða 1.-3. júlí. Fimmtudaginn 30. júní frá kl. 13-17 verður Náttúrubarnaskólinn sem rekinn er innan vébanda safnsins með námskeið með hamingjuþema fyrir börn á öllum aldri. Það er vísindalega sannað að það fylgir því aukin hamingja að vera í góðu sambandi við sitt innra náttúrubarn. Þátttaka á námskeiðinu kostar 3.000.- á og skráning er í síma 661-2213 eða á facebook-síðu Náttúrubarnaskólans.

Á Hamingjudögum verður einnig opnuð ljósmyndasýningin Náttúrubörn á Ströndum! sem endurspeglar magnaða og fjölbreytta náttúru og dýralíf á Ströndum. Sýningin verður í sal Kaupfélags Steingrímsfjarðar á Hólmavík og formleg opnun er föstudaginn 1. júlí kl. 13:00. Náttúrubarnaskólinn stendur fyrir sýningunni og boðið verður upp á dýrindis hamingjujurtaseyði við opnunina.

Að kvöldi föstudagsins 1. júlí kl. 20:00 verður spurningaleikurinn Kaffikvörn (í anda PubQuiz) á Sauðfjársetrinu. Sá leikur snýst um spurningar, gleði og gaman fyrir alla fjölskylduna. Á boðstólum verður dýrindis vöffluhlaðborð í hléinu.

Sauðfjársetur á Ströndum heldur svo sína árlegu Furðuleika í þrettánda skiptið sunnudaginn 3. júlí og hefjast þeir kl. 13. Leikarnir eru hefðbundinn lokapunktur á hátíðahöldunum og snúast um að börn og fullorðnir leiki sér saman. Á Furðuleikum er keppt í ýmsum skringilegum og skemmtilegum greinum sem eiga sameiginlegt að þær munu aldrei fá viðurkenningu alþjóða Ólympíunefndarinnar. Meðal keppnisgreina að þessu sinni er t.d. stígvélaþeytingur, öskur, bakkabræðrafjör, letikast og fleira. Þá má einnig nefna sýningargreinina trjónufótbolta sem hefur notið gífurlegra vinsælda undanfarin ár, enda ótrúlega skemmtileg á að horfa.

Alls engar kröfur eru gerðar til keppenda um færni, þol eða fyrri reynslu í íþróttum. Yfirleitt er lítið um verðlaun, önnur en heiðurinn, gleðin og ánægjan af því að taka þátt. Verðlaun verða þó veitt fyrir bestu frammistöðu í letikastinu.

Í kaffistofunni verður veglegt kaffihlaðborð á boðstólum á hóflegu verði. Aðgangur að öllum sögusýningum Sauðfjársetursins er ókeypis í tilefni dagsins og sama gildir um Furðuleikana sjálfa. Sauðfjársetur á Ströndum er safn sem er staðsett í Sævangi, 12 km sunnan við Hólmavík. Þar eru sögusýningar tengdar sauðfjárbúskap og einnig minjagripabúð og kaffistofan Kaffi Kind.