23/12/2024

Náttúrubarnahátíð 19.-21. júlí

Fjölskylduhátíðin Náttúrubarnahátíð á Ströndum verður haldin í þriðja skiptið helgina 19.-21. júlí nú í sumar. Á hátíðinni fá allir gestir, bæði börn og fullorðnir, kjörið tækifæri til að finna eða rækta sitt innra náttúrubarn. Það er Náttúrubarnaskólinn sem stendur fyrir hátíðinni en hann hefur verið starfræktur síðan sumarið 2015. Náttúrubarnaskólinn stendur fyrir fjölbreyttum námskeiðum yfir sumartímann og miðar að því að fræða börn á öllum aldri um ólíkar hliðar náttúrunnar á námskeiðum sem snúast um útivist og náttúruskoðun þar sem þau læra með því að sjá, snerta og upplifa viðfangsefnin.

Náttúrubarnaskólinn er starfræktur innan vébanda Sauðfjársetursins í Sævangi rétt sunnan við Hólmavík, og þar verður hátíðin haldin. Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur hefur séð um náttúrubarnaskólann frá upphafi og skipulagningu hátíðarinnar. „Þetta gengur bara frábærlega og við erum æsispennt, eins og alltaf,“ segir Dagrún Ósk. „Við reynum alltaf að hafa fjölbreytta dagskrá sem miðast að því að fræðast um náttúruna og hafa gaman og það tókst bara mjög vel, þó ég segi sjálf frá. Svo fengum við veglega styrki frá Barnamenningarsjóði og Uppbyggingasjóði Vestfjarða sem gerir okkur kleift að hafa ókeypis aðgang að hátíðinni í ár“ bætir Dagrún við. 

Hátíðin hefst á föstudegi með fuglaskoðun og síðan setningarathöfn og veðurgaldri. „Veðurgaldurinn á að kalla fram sólskin og gott veður, þetta er svona hálfgerður dans. Hann hefur ekki brugðist okkur ennþá enda allt uppfullt af göldrum hérna á Ströndunum “ segir Dagrún og hlær. 

Um helgina verða svo margir fjölbreyttir viðburðir sem flétta saman skemmtun og fróðleik, til dæmis verður Jónsi í Svörtum fötum með tónleika á laugardagskvöldinu. Við fáum góða gesti úr Sirkus Íslands á sunnudeginum og svo verður náttúrubarnakviss og töfrasýning á föstudeginum. Einnig verða smiðjur tengdar útivist, hægt að fara í gönguferðir, á hestbak, í náttúrujóga og sjósund. Það verða drauga- og tröllasögur í Sagnahúsinu, leikhópurinn Miðnætti, Stjörnu-Sævar kemur í heimsókn og margt fleira.

„Ég hvet sem flesta til að kynna sér dagskrána hér í þessari slóð og koma og leika sér með okkur. Það er ótrúlega dýrmætt að fara út og leika sér saman börn og fullorðnir og skapa skemmtilegar minningar,“ segir Dagrún að lokum, en hægt er að kynna sér hátíðina nánar á Facebook síðu Náttúrubarnaskólans, á natturubarnaskoli@gmail.com eða hjá Dagrúnu í síma 661-2213.