30/10/2024

Námskeið um slöngubáta

Um helgina var haldið námskeiðið í notkun slöngubáta í Árneshreppi. Tólf manns mættu á námskeiðið og þar af 4 frá Hólmavík sem þótti mjög góð mæting. Fólk á öllum aldri tók þátt í námskeiðinu og þeir fullorðnu mættu líka til að kynna sér notkun þessara björgunartækja. Elsti nemandinn á námskeiðinu var 64 ára gamall og sá yngsti 16 ára. Námskeiðið þótti vel heppnað og voru bæði nemendur og leiðbeinendur mjög ánægðir af því loknu.

Námskeiði nú um helgina var þriðja námskeiðið sem haldið er á Vestfjörðum í haust. Fyrir var búið að halda námskeiðið Slöngubátar 1 á Hólmavík um miðjan september þar sem 7 nemendur mættu og einnig  námskeiðið Slöngubátar 2 á Þingeyri í byrjun október þar sem 15 nemendur mættu. Mikið hefur verið af ungu og nýju fólki á námskeiðunum í haust, en einnig hefur verið töluvert af reyndari björgunarmönnum á námskeiðunum sem hafa sótt þau til að rifja aðeins upp. Í lok janúar er svo fyrirhugað að halda námskeið í notkun harðbotna slöngubáta og búast menn við að þar muni mæta að minnsta kosti 3 áhafnir með báta sína.
 
Yfirleiðbeinandi á þeim námskeiðum sem haldin hafa verið var J. Bæring Pálmason frá Björgunarfélagi Ísafjarðar og honum til aðstoðar Gísli Sveinn Aðalsteinsson og Þorbjörn Jóhannsson sem einnig koma frá Björgunarfélagi Ísafjarðar.

Frá námskeiðinu í Árneshreppi