30/10/2024

Námskeið fyrir fréttaritara

Á ritstjórnarfundi strandir.saudfjarsetur.is á dögunum var farið yfir starfsemi vefjarins þessa fyrstu 8 mánuði sem hann hefur verið í loftinu og rætt um leiðir til að efla þennan fréttamiðil. Meðal þeirra leiða sem ætlunin er að fara er að bjóða öllum þeim sem hafa verið fréttaritarar eða langar til að vera fréttaritarar fyrir vefinn á harðsnúið, stutt og skemmtilegt námskeið nú í haust og er ætlunin að það verði haldið í október. Vonast er til að með því fjölgi virkum fréttaskrifurum og fjölbreytnin í fréttaflutninginum aukist um leið. Ætlunin er að fjalla einkum um hugmyndafræðina á bak við vefinn, fréttamat, skrif og ljósmyndun á námskeiðinu. Á ritstjórnarfundinum var einnig fjallað um helstu styrkleika og veikleika vefjarins og má nálgast minnisblað sem tekið var saman á fundinum með því að smella á "Lesa meira" ef ske kynni að mönnum þætti vangaveltur ritstjórnar áhugaverðar.

Helstu styrkleikar strandir.saudfjarsetur.is

* Afmörkun vefjarins hefur tekist einstaklega vel. Vefurinn er fréttavefur fyrir Strandamenn hvar sem er í heiminum. Fjölmargir aðrir hafa samt líka gaman af.

* Tekist hefur að flytja fréttir og greinar úr allri sýslunni, þó eðlilega sé nokkuð misvægi eftir svæðum og búsetu virkra fréttaritara.

* Fréttaritarakerfið hefur virkað mjög vel. Allnokkrir einstaklingar hafa sent töluvert af efni og myndum á vefinn og hafa áhuga á að hann gangi sem best.

* Vefurinn hefur spurst þónokkuð út og margir kíkja á hann á hverjum degi.

* Vefurinn hefur nýst vel til markaðssetningar atburða og ferðaþjónustu á svæðinu.

* Vefurinn hefur haft þau áhrif að fréttaflutningur af svæðinu í öðrum fjölmiðlum hefur stóraukist.

* Markmiðin með stofnun vefjarins hafa náðst að miklu leyti. Viðtökur hafa verið góðar og ritstjórn og vefurinn hefur fengið hrós frá fjölmörgum einstaklingum, aðallega brottfluttum Strandamönnum.

* Aðsókn að vefnum hefur verið mjög góð – oft tæplega 1000 heimsóknir á dag. Hún datt þó nokkuð niður í kjölfar bilanna á vefnum og eins hefur hún verið minni í sumar en sl. vetur, væntanlega er þar um eðlilega sveiflu að ræða sem tengist minni netnotkun lesendahópsins um sumar en vetur. Það skýrist í haust.

Nokkrir veikleikar strandir.saudfjarsetur.is

* Vefurinn hefur 2x bilað illilega á rekstrartímanum, í báðum tilfellum var þar um að ræða bilun hjá hýsingaraðila. Ekki hefur enn tekist að lagfæra þessar bilanir og myndir með 150 fréttum sem duttu út í fyrri bilun nást sennilega ekki aftur. Enn vantar allar fréttir frá 10. maí – 26. júlí eftir síðari bilun en vonir standa til að hýsingaraðila takist að lagfæra það sem fyrst. Þessar bilanir tóku verulegan tíma og kraft frá ritstjórnarmönnum.

* Hýsingin á vefnum er erlendis í sparnaðarskyni og hefur ekki reynst nógu vel. Hýsing innanlands er hins vegar of dýr til að hægt sé að reka vefinn á þann hátt með góðu móti.

* Lélegt netsamband á Ströndum stendur rekstri vefjarins fyrir þrifum. Stundum er langtímum saman ómögulegt að uppfæra vefinn eða setja inn á hann myndir af því sambandið er of hnökrótt.
* Ritstjórnarvinnan er tímafrek í meira lagi – sérstaklega ákveðnir þættir hennar eins og afmæliskveðjur. Það er oft erfitt að finna tíma í þessa sjálfboðavinnu.
* Ritstjórn hefur haft mun minni tíma til að hlúa að vefnum í sumar en síðastliðinn vetur vegna ýmissa annarra verkefna, spurning hvort líta eigi á það sem eðlilega sumarsveiflu eða reyna að sporna gegn henni.

* Upplýsingastreymi frá opinberum aðilum á Ströndum til vefjarins er lítið sem ekkert, sveitarstjórnir virðast t.d. ekki líta á vefinn sem góðan vettvang fyrir fréttir og umræðu. Fréttir af ákvörðunum og verkefnum þessara aðila frá fyrstu hendi myndu augljóslega spara tíma og vinnu.

* Tekjur vefjarins af auglýsingum eru sáralitlar.

Ákvarðanir til úrbóta:

* Halda hressilegt námskeið fyrir fréttaritara.

* Ýta á hýsingaraðila að lagfæra bilunina síðari.

Til umhugsunar og úrvinnslu fyrir næsta ritstjórnarfund:

* Með hvaða hætti er hægt að auka tekjurnar án þess að það þýði of mikla vinnu og fyrirhöfn?

* Ætti að breyta forminu á afmæliskveðjum þannig að þær birtist eins og í gestabókinni án mynda?

* Er með einhverjum hætti hægt að varðveita vefinn og efni á honum til frambúðar þannig að það verði örugglega aðgengilegt komandi kynslóðum?