30/10/2024

Myndlist á Bryggjuhátíð

Myndlistarsýningar eru fastur liður á Bryggjuhátíðinni á Drangsnesi og verður svo einnig nú. Þrír listamenn munu sýna verk sín á hátíðinni þann 16. júlí n.k. Sólrún Elíasdóttir, Bjarni Elíasson og Elín Anna Þórisdóttir. Sólrún og Bjarni eru systkini fædd og uppalin í Kaldrananeshreppi fyrir miðja síðustu öld. Sólrún hefur stundað málaralist í mörg ár og hefur sótt ýmis námskeið í málun. Bjarni aftur á móti er nýbyrjaður að munda pensilinn og synd að hann hafi ekki gefið sér tíma til þess fyrr. Elín Anna Þórisdóttir er af yngri kynslóð og hefur BA gráðu frá myndlistadeild LHÍ vorið 2004. Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og er nú með einkasýningu í Gallerí Galileo í Reykjavík.

Sólrún og Anna sýna í skólanum á Drangsnesi, en Bjarni setur sína sýningu upp í nýbyggðri sundlaug sem verið er að taka í notkun á Drangsnesi. Þetta eru ólík verk og endurspegla glögglega aldursmun sýnenda. Sýningar Sólrúnar og Bjarna opna fyrir Bryggjuhátíð og gefst fólki þá tækifæri til að skoða verk þeirra dagana fyrir Bryggjuhátíð. Auk þessa munu verða sýnd verk nemenda frá Drangsnesskóla og verða þau verk til sýnis í Kaffihúsi Bryggjuhátíðar sem staðsett verður í skólanum á Drangsnesi.

Elín Anna Þórisdóttir við eitt verka sinna