22/12/2024

Myndir frá Hrútfirðingaballi

Hrútfirðingaball var haldið með pomp og pragt síðastliðið laugardagskvöld syðra, eins og áður var getið um hér á strandir.saudfjarsetur.is. Hrútfirðingar á öllum aldri tóku vel við sér eins og við mátti búast og fjölmenntu á ballið, en um 140 manns mættu. Ekki var annað að sjá en allir skemmtu sér hið besta enda fjörið í algleymi eins og svo oft þegar Hrútfirðingar koma saman. Atli Vilhjálmsson frá Kollsá átti allan heiður að þessari samkomu. Hann sagðist í viðtali við strandir.saudfjarsetur.is þarna á ballinu að hann hefði verið búinn að ganga með það í maganum í mörg ár að blása til Hrútfirðingaballs. Nú hefði hann loksins látið verða af því og greinilegt væri bæði á mætingunni og hversu fólkið skemmti sér vel að það hefði verið tímabært.

Atli sagðist ekki ætla að sjá um þetta einn aftur en vonaðist til að vera búinn að ýta þessu þannig úr vör að þessar skemmtanir yrðu fastur liður í framtíðinni. Gestir þökkuðu Atla með því að drífa hann upp á svið og skála fyrir honum.

Hér á vefnum strandir.saudfjarsetur.is hefur verið opnað nýtt myndasafn þar sem ætlunin er að birta myndir frá ýmsum mannfögnuðum og má nálgast myndir frá Hrútfirðingaballinu undir þessum tengli. Ef smellt er á einhverja myndina birtist hún í stækkaðri útgáfu og er hægt að fletta þar á milli og líka láta myndirnar rúlla eins og slidesmyndasýningu.