24/11/2024

Mun Orkubú Vestfjarða verða sett upp í skuldir Landsvirkjunar?

Aðsend grein: Jón Bjarnason, þingmaður VG
Það voru þung spor sem Vestfirðingar urðu að stíga fyrir um 5 árum, þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks knúði þá til að láta Orkubúið sitt af hendi upp í skuldir, fyrst og fremst við opinbera aðila eins og Íbúðalánasjóð. Orkubú Vestfjarða var ein af verðmætustu samfélagseigum íbúanna. Þrátt fyrir  dreifða byggð og miklar vegalengdir var raforkuverð til neytenda, heimila og fyrirtækja einna lægst á Vestfjörðum.

Loforð svikin og orkuverð hækkar enn

Miklir svardagar voru gefnir heimamönnum  af hálfu forystumanna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks: Þjónustan yrði sú sama, raforkuverð myndi ekki hækka. Orkubúið yrði áfram sjálfstætt og þjónaði fyrst og fremst hagsmunum Vestfirðinga. Raforkuverð átti að lækka með  nýjum raforkulögum, markaðsvæðingu og hagræðingu.

En raunin hefur orðið allt önnur

Nú berast boð um að Orkubúið hafi verið skyldað til að stórhækka orkuverð frá 1. mars n.k. til fyrirtækja og heimila á Vestfjörðum og uppfylla þar með þær arðsemiskröfur sem stjórnvöld gera til fyrirtækisins. Áður var litið á raforkuna sem grunnþjónustu og lágt verð og góð þjónustu væru því í raun arðurinn til neytenda.  Nú er það gróðinn, arðsemi fjármagnsins, sem gengur fyrir öllu. Vestfirðingar og þjóðin öll sýpur seyðið af þeirri stefnu stjórnvalda. Hækkun orkuverðs er köld kveðja til Vestfirðinga sem nú verða fyrir hverju áfallinu á fætur öðru í atvinnumálum, bein afleiðing af stefnu stjórnvalda.

Vestfirðingar borga stóriðjutoll ríkisstjórnarinnar

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp frá ríkisstjórninni um að leggja Orkubú Vestfjarða endanlega inn í Landsvirkjun til að „treysta eignastöðu hennar“ og þar með yrðu Vestfirðingar skyldaðir til að borga að fullu stóriðjutoll Landsvirkjunar: „Eignarhlutur ríkisins í Orkubúi Vestfjarða hf og Rafmagnsveitum ríkisins hf skal lagður til Landsvirkjunar sem viðbótar eigendaframlag  ríkissjóðs í Landsvirkjun fyrir 1. júlí 2007“. Nái frumvarp ríkisstjórnarinnar fram að ganga verður  þetta stolt Vestfirðinga, Orkubúið, aðeins pappírsgagn í skúffu Landsvirkjunar. Með því að leggja bæði Rarik og Orkubúið inn í Landsvirkjun verður  einfalt að setja einkavæðingu Landsvirkjunar á fulla ferð.

Skilum Orkubúinu aftur til Vestfirðinga

Þingmenn Vinstri grænna hafa staðið með Orkubúi Vestfjarða alla tíð. Við lítum á raforkuna sem grunnþjónustu og lögðumst gegn markaðs- og einkavæðingu raforkukerfisins.
Við höfum afdráttarlaust lagst gegn því að afhenda Landsvirkjun Orkubú Vestfjarða og Rarik hf.  Við krefjumst þess að Orkubúið fái að vera sjálfstætt opinbert fyritæki í forsjá Vestfirðinga sem ber hagsmuni heimamanna  fyrst og fremst fyrir brjósti.

Nóg komið af einkavæðingu

Við heitum á Vestfirðinga og landsmenn alla  að standa með okkur þingmönnum VG gegn því að fórna Orkubúinu upp í skuldir Landsvirkjunar vegna stóriðjunnar. Stöðva þarf áform stjórnvalda um að leggja Orkubúið og Rarik inn í Landsvirkjun og það  á síðustu dögum ríkisstjórnar sem hefur þegar unnið  stórtjón með einkavæðingu á almannaþjónustu landsbyggðarinnar.
 
Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi