22/12/2024

Mölin – tónleikaröð á Drangsnesi


Laugardagskvöldið 13. október næstkomandi verða haldnir fyrstu tónleikarnir í nýrri tónleikaröð á Malarkaffi á Drangsnesi. Tónleikaröðin, sem hefur hlotið nafnið Mölin, verður haldin mánaðarlega í vetur og verður lögð áhersla á að færa þverskurð af fjölbreyttri tónlistarflóru landsins nær menningarþyrstu Strandafólki. Það er hinn eðalborni Prinspóló sem mun ríða á vaðið og heilla tónleikagesti með grípandi smellum sínum. Á tónleikunum á laugardaginn verður Prinsinum til halds og trausts hans ektakona Berglind Hressler en þau hafa undanfarnar vikur dvalist ásamt fjölskyldu sinni á Drangsnesi. Má því búast við að töfrandi Strandaloftið smitist inn í spilamennsku þeirra hjóna og smellir á borð við Lúxuslíf og Niðrá strönd öðlist nýtt líf á Mölinni.

Tónlistarmaðurinn Borko mun hita tónlistargesti upp með nýjum útgáfum af lögum sínum. Borko, sem nýverið flutti af mölinni á Drangsnes, mun jafnan sjá um upphitun fyrir listamennina sem leika á Mölinni og er ætlunin að nýtt efni verði flutt í hvert sinn.

Á þessa fyrstu tónleika Malarinnar verður aðgangur ókeypis og vonast Prinsinn og hirð hans til að sjá sem flesta.