22/12/2024

Mölin raknar úr rotinu

645-ylja
Tónleikaröðin Mölin heldur áfram göngu sinni næstkomandi laugardagskvöld þegar hljómsveitin Ylja kemur fram á tónleikum á Malarkaffi á Drangsnesi. Hljómsveitin Ylja kom sem stormsveipur inn í íslenskt tónlistarlíf á síðasta ári og vakti mikla athygli fyrir grípandi, fjölbreyttar og spennandi lagasmíðar og frábæran flutning. Lag þeirra Út klifraði hátt á Vinsældalista Rásar 2 og sveitin átti eftirminnilega innkomu í áramótaþætti Hljómskálans en auk þess er Ylja tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem bjartasta vonin.

Sveitina skipa Bjartey Sveinsdóttir og Guðný Gígja Skjaldardóttir, sem báðar leika á gítar og syngja og Smári Tarfur Jósepsson sem spilar á slidegítar. Smári, eða Tarfurinn eins og hann gjarnan er kallaður, gerði garðinn frægan sem gítarleikari sveitarinnar Quarashi er frægðarsól þeirrar sveitar skein sem skærast en hann hefur auk þess vakið athygli fyrir gítarleik sinn með sveitunum Hot Damn! og Lights On The Highway. Í Ylju kveður þó við allt annan tón hjá Smára. Í félagi við stelpurnar hefur hann skapað einstakan hljóm sem sker sig töluvert úr litríkri flóru íslensks tónlistarlífs. Hnitmiðaður gítarleikur stelpnanna í bland við seiðandi raddanir, ásamt ótrúlegum slidegítarleik Tarfsins gerir tónlist Ylju að einstakri upplifun.

Frumburður sveitarinnar, sem er samnefnd hljómsveitinni, kom út í nóvember á síðasta ári en þar leitaðist þríeykið við að fanga hina einstöku stemningu sem einkennir sköpun og lifandi flutning hljómsveitarinnar. Á Mölinni mun Ylja leika lög af plötunni og hver veit nema ný lög slæðist með í dagskránni.

Að vanda mun Borko opna kvöldið með nýrri og gamalli tónlist úr smiðju sinni og hefur sérstakur leynigestur boðað komu sína til að flytja lögin í félagi við Borko.

Húsið opnar kl.21:00 en tónleikarnir hefjast stundvíslega kl.21:30. Miðaverð er 2000 kr.