22/12/2024

Mokstur einu sinni í viku í Árneshrepp

Litla ÁvíkÍ frétt á www.litlihjalli.it.is kemur fram að ákveðið hefur verið að moka Strandaveg norður í Árneshrepp einu sinni í viku frá vegamótum Drangsnesvegar norður að Gjögri. Hreinn Haraldsson vegamálastjóri tilkynnti samgöngunefnd Árneshrepps þessa ákvörðun í síðustu viku, að höfðu samráði við samgönguráðherra. Þetta eru afar ánægjuleg tíðindi, enda þar með komið í veg fyrir að Árneshreppur sé eina sveitarfélagið á Íslandi án snjómoksturs að vetrarlagi.

Fulltrúar Vegagerðarinnar, Jón Hörður Elíasson og Sigurður Mar Óskarsson á Ísafirði, mættu norður á fund með oddvita Árneshrepps og fulltrúum úr samgöngunefnd. Ákveðið var að mokað yrði á þriðjudögum, nema  veður eða veðurútlit bendi til að betra væri að fresta aðgerðum. Verði fannfergi mun meira en undanfarin ár skal leitað álits vegamálastjóra um hvort endurskoða skuli þessa ákvörðun.