22/12/2024

Misjöfn eru morgunverkin

Starfsmenn Orkubús Vestfjarða á Hólmavík höfðu í nógu að snúast nú í morgunsárið. Voru farnir að vinna í viðgerðum um rismál klukkan sex í morgun, áður en flestir aðrir voru komnir í leppana. Straumur hafði hlaupið í rafmagnsstaur með spenni (sem breytir háspennu í lágspennu til heimabrúks) á bæ nokkrum í Tungusveit. Var mikið og fallegt neistaflug þar sem vörnin brást og sveigurinn úr háspennulínunni lá utan í staurinn, líklega eftir síðasta suðvestanrok. Línan var tekin niður og nýr staur reistur og er viðgerð líklega að ljúka um þetta leyti.

 Bilanir á rafkerfinu verða yfirleitt þegar veður eru verst og hvenær sólarhringsins sem er. Viðgerðarflokkur Orkubúsins er því ýmsu vanur í þessum efnum, þó raflínur slitni og staurar brotni ekki jafn oft og áður var, eftir að jarðstrengir hafa tekið við af raflínunum á mörgum verstu veður- og ísingarsvæðunum.

Brunastaur

frettamyndir/2010/580-brunastaur1.jpg

Ljósm. Jón Jónsson