Myndlistarkonan Mireya Samper er listamaður Bryggjuhátíðar á Drangsnesi í ár. Hún sýnir verk sín í skólanum á Drangsnesi. Hefur Mireya dvalið á Drangsnesi undanfarna viku og unnið þar að list sinni. Við upphaf hátíðarinnar á laugardaginn mun hún færa heimamönnum á Drangsnesi listaverk eftir sig að gjöf. Þetta verk hefur hún hoggið í grjóthleðsluna við heitu pottana sem staðsettir eru í fjörunni framan við skólann. Verkið kallar hún Lagrima.
Mireya er þekktur og velmetinn listamaður og hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum og haldið einkasýningar víða um heiminn. Það er sérstaklega gaman að Mireya skuli hafa séð sér fært að koma á Drangsnes og sýna þar verk sín á Bryggjuhátíðinni. Það er um að gera að nýta sér þetta einstaka tækifæri til að kynnast listakonunni og verkum hennar.
Mireya Samper við störf – ljósm. Jenný Jensdóttir