21/11/2024

Minnisvarði um galdramenn

150-minnisvardi5Um helgina var afhjúpaður minnisvarði við Minja- og handverkshúsið Kört í Trékyllisvík. Minnisvarðinn er til minningar um mennina þrjá sem bornir voru á bál sakaðir um galdra árið 1654. Minnisvarðinn er reistur að frumkvæði Valgeirs Benediktssonar sem á og rekur Minja-og handverkshúsið Kört. Framkvæmdin var studd af Landvernd, Seacology Foundation og Árneshreppi. Mikið fjölmenni var við athöfnina.

Við aftökustað mannanna þriggja í Kistuvogi flutti Rakel Valgeirsdóttir, safnvörður í Kört, hugleiðingu um í hvaða umhverfi mennirnir þrír bjuggu sem brenndir voru. Það er óhætt að segja að viðstaddir hafi hlustað með athygli á Rakel því bæði var erindið vel flutt og vakti vafalaust fólk til umhugsunar um þær erfiðu aðstæður sem fólk bjó við í Trékyllisvík og víðar um miðja 17. öld.

400-minnisvardi1

Dagskráin fór að hluta til fram í Félagsheimilinu í Trékyllisvík sem troðfylltist af fólki. Þar flutti Ólína Þorvarðardóttir, skólameistari á Ísafirði, skörulegt erindi þar sem hún rakti galdramálin í Trékyllisvík. Jónas Gylfason las kafla úr Íslandsklukkunni og Sigurður Atlason fór á kostum í hlutverki galdramanns. Oddviti Árneshrepps, Gunnsteinn Gíslason, flutti stutt erindi og bauð síðan viðstöddum upp á veitingar fyrir hönd Árneshrepps.

Minnisvarðinn sjálfur er steindrangur sem fenginn er af svæðinu. Á hann er festur skjöldur með myndefni tengdu aftökunni. Myndefnið er unnið af listafólkinu Nínu og Smára sem  undanfarin ár hafa haft vetursetu í Æðey á Ísafjarðardjúpi. Þetta er í fyrsta skipti sem fórnarlömbum galdrafársins á Íslandi er reistur bautasteinn og óhætt að segja að vel hafi tekist til.

580-minnisvardi5 580-minnisvardi4 580-minnisvardi3 580-minnisvardi2 580-minnisvardi1