05/11/2024

Mikil stytting vegalengda yfir vetrartímann

Guðmundur Björnsson flutningabílstjóri og Jón Vilhjálmsson vegagerðarmaðurÞað var mál manna í ræðuhöldum við opnun vegarins um Arnkötludal í gær að um byltingu í samgöngum væri að ræða fyrir Strandir og norðanverða Vestfirði, bæði hvað varðar styttingu vegalengda yfir veturinn og einnig með bundna slitlaginu sem nær frá þéttbýlisstöðum víða á Vesturlandi, höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi, til Hólmavíkur og áfram til þorpanna á norðanverðum Vestfjörðum. Vegalengdir yfir veturinn styttast mikið og má búast við að allt samstarf verði auðveldara á Vestfjarðavísu, enda er um að ræða yfir 150 km styttingu milli Hólmavíkur og Reykhóla eða Patreksfjarðar yfir vetrartímann, 60 km styttingu frá Hólmavík í Búðardal og til staða á Snæfellsnesi og 40 km styttingu leiðarinnar milli Hólmavíkur og staða í Borgarfirði, á suðvesturhorni landsins og Suðurlandi.

Margir tóku til máls við hátíðarhöldin í Félagsheimilinu á Hólmavík við opnun vegarins. Þar töluðu Hreinn Haraldsson vegamálastjóri sem er ættaður af Ströndum, úr Hrútafirði, Kristján Möller samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson fyrrverandi samgönguráðherra, Guðmundur Rafn Kristjánsson hjá Vegagerðinni og Jónas Guðmundsson sýslumaður í Bolungarvík og frumkvöðull að Leið ehf sem vann ötullega að því að koma þessari vegagerð um Arnkötludal á koppinn.

Einnig tóku til máls Elías Jónatansson bæjarstjóri í Bolungarvík, Anna Guðrún Edvardsdóttir formaður stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga, Guðmundur Steingrímsson alþingismaður, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir sveitarstjóri á Tálknafirði sem tók einnig sæti á alþingi nýverið og Kristinn H. Gunnarsson fv. alþingismaður. Þorsteinn Sigfússon svæðisstjóri Orkubús Vestfjarða á Hólmavík stjórnaði dagskránni. Heimamenn höfðu sig ekki í frammi við ræðuhöldin og tók enginn til máls fyrir hönd Strandamanna.

Nálgast má fleiri myndir af ræðumönnum og athöfninni við vígsluna á myndasíðu hjá Ingimundi Pálssyni á Hólmavík.