23/12/2024

Mikið fjör á húmorsþingi

Húmorsþing á Hólmavík á vegum Þjóðfræðistofu hefur verið mjög vel sótt í dag og var fjöldi manns á ráðstefnu á Café Riis þar sem húmor, kerskni, grín og glens, var tekið til umræðu út frá þjóðfræðilegu sjónarhorni með gamansömu ívafi. Voru þar flutt 7 erindi þar sem fjallað var um brandara, gamansögur, áramótaskaup og fleira. Ekki var mætingin síðri í kvöld á skemmtikvöld í kvöld þar sem Þorsteinn Guðmundsson grínisti fór á kostum og haldin var brandarakeppni. Á morgun heldur húmorinn áfram með grínkeppni barna og unglinga í þrjúbíói á Galdraloftinu á Hólmavík þar sem valið verður besta grínið úr bröndurum sem borist hafa og þeim sem fluttir verða á staðnum, en þar verður einnig sýnd bíómynd með Charlie Chaplin.

Brandaradraugurinn á galdrahorninu hefur einnig farið á kostum í dag og sagt öllum sem fram hjá hafa farið brandara.