22/12/2024

„Menn verða kátari á fundinum í Bjarkalundi en nokkru sinni fyrr“

Viðtal við Sigurð Atlason
Framundan er fundaherferð um Vestfirði sem Ferðamálasamtök Vestfjarða hafa boðað til. Þar á að vinna að stefnumótun fyrir ferðaþjónustu á Vestfjörðum með virkri þátttöku íbúa og ferðaþjóna á hverju svæði. Fyrsti fundurinn verður haldinn í Bjarkalundi laugardaginn 7. nóvember og stendur frá 13-16. Boðið verður upp á veitingar og er ætlunin að fundargestir eigi saman góða og gleðiríka stund. Allir eru velkomnir sem vilja taka þátt í að ræða þróun og stefnu ferðaþjónustunnar næstu árin. Sigurður Atlason formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða var tekinn tali af þessu tilefni og fyrst spurður að því fyrir hverja fundurinn í Bjarkalundi sé hugsaður.

Hverjir eiga erindi í Bjarkalund?
"Vonandi mæta sem allra flestir á fundinn þannig að fjölbreytt sjónarhorn komi fram, það er líka svo gaman að hittast og heyra í fólki. Fundurinn er ekki bara fyrir alla sem starfa í ferðaþjónustu, heldur alla sem tengjast henni með einhverjum hætti og það eru líklega miklu fleiri en menn halda í fyrstu því hún hefur svo víðtæk áhrif í hverju samfélagi. Þarna vil ég líka sjá íbúa sem tengjast ferðaþjónustu ekkert beint, bara ef þeir hafa skoðun á henni og hugsa um ferðamál. Auðvitað líka alla sem hafa beinlínis akk af ferðaþjónustunni, sveitarstjórnarmenn og ferðaþjóna."

Er fólk í ferðaþjónustu án þess að vita af því?
"Jájá, það er dálítið um það og bara mjög eðlilegt. Margir íbúar tengjast ferðaþjónustunni í störfum sínum, stundum án þess að vera meðvitað um það. Þarna má t.d. nefna starfsfólk sveitarfélaganna og fólk í margvíslegri verslun og þjónustu, stundum afgreiðslufólk í verslunum, sundlaugarverðir, verkstæðismenn, gjaldkerar í bönkum og þeir sem starfa í heilsugæslunni – öll þessi störf tengjast ferðaþjónustunni. Þannig eru mjög margir íbúar á svæðinu sem sinna ferðafólki í vinnu sinni og við þurfum stundum að vera meðvitaðri og helst dálítið montnari af því að vera í þátttakendur í ferðaþjónustu. Hún er orðin svo gríðarlega mikilvæg atvinnugrein og hefur líka jákvæð áhrif á mannlíf og menningu."

Nú er fyrirhugað að halda fundi í Bjarkalundi, Patreksfirði og Ísafirði, eiga Strandamenn að skella sér í Bjarkalund?
"Við vonum einmitt til að Strandamenn fjölmenni á fundinn í Bjarkalundi og staðsetningin á þeim fundi er dálítið táknræn fyrir aukna samvinnu Strandamanna og íbúa Reykhólarhepps. Staðurinn er eiginlega valinn út af þessum kærkomnu vegabótum sem orðnar eru með vegi um Arnkötludal. Ég vona um að Strandamenn mæti galvaskir í Reykhólasveitina og komi kátari á þennan fund en nokkru sinni áður á fundi. Vonandi hitta þeir svo fyrir heilan hóp af heimamönnum."

Hvað á að gera á fundinum?
"Þetta eru þriggja tíma fundir með hléum, þar sem fyrst verða kynningar og síðan vinna þátttakendur í litlum hópum að einstökum málaflokkum. Það eru fjórir hópar og einn hópstjóri í hverjum hópi, en þeir sem mæta vinna ákveðinn tíma í öllum hópunum. Þarna á t.d. að ræða um markaðsmál og ímynd Vestfjarða í einum hópnum, í öðrum verður rætt um gistingu og veitingar, afþreyingu í þriðja og grunnþjónustu og hlutverk ólíkra aðila í ferðaþjónustunnni í þeim fjórða. Við erum með einvala lið til að stjórna hópunum, Jón Jónsson menningarfulltrúi Vestfjarða stjórnar umræðunni um markaðsmálin, Ásgerður Þorleifsdóttir stýrir umræðunni í hópnum um gistingu og þjónustu, Jón Páll Hreinsson forstöðumaður Markaðsstofunnar stýrir hópnum um afþreyingu og ég ætla svo sjálfur að reyna að stjórna hópnum sem ræðir um grunnþjónustu og grasrótarstarfið."

"Ásgerður vinnur úr þessu öllu saman í framhaldinu og býr til uppkast að stefnumótun ásamt stjórn Ferðamálasamtakanna og svo verður líklega önnur fundaferð seinna í vetur áður en stefnan verður fullbúin í vor. Það hefur ekki verið unnin stefnumótun fyrir Ferðamálasamtök Vestfjarða í 15 ár og sannarlega kominn tími til. Við höfum valið þá aðferð að hugsa fimm ár fram í tímann, hvernig verður vestfirsk ferðaþjónusta eftir fimm ár, að þessu sinni."

Við þökkum Sigurði kærlega fyrir spjallið og vonum að mætingin á stefnumótunina verði góð, bæði í Bjarkalundi kl. 13:00 laugardaginn 7. nóv., en líka á Patreksfirði mánudaginn 9. nóv. og á Ísafirði miðvikudaginn 11. nóv. en tveir seinni fundirnir hefjast kl. 18:00.