Ný fyrirlestraröð Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum í Hrútafirði ber yfirskriftina Með Sunnudagskaffinu. Á sunnudaginn flytur dr. Vilhelm Vilhelmsson sagnfræðingur og stundakennari við Háskóla Íslands fyrirlesturinn Bændur og vinnuhjú í Miðfirði á 19. öld og hefst viðburðurinn kl. 14:00. Allir eru velkomnir og verður kaffisala á staðnum. Í erindinu fjallar Vilhelm um vistarbandið svokallaða, þá skyldu allra 18 ára og eldri sem ekki höfðu búsforræði eða annan löglegan atvinnuveg að ráða sig til ársvista hjá bændum, eins og það birtist í heimildum úr Miðfirði í Húnavatnssýslu á 19. öld. Vistarbandið á sér langa sögu en var einna strangast á tímabilinu 1783 til 1866. Áhersla verður lögð á þá félagslegu togstreitu sem fylgdi vistarbandinu og birtist ekki eingöngu í sambandi bænda og hjúa þeirra heldur einnig í sambandi bænda við fulltrúa yfirvalda.
Tekin verða valin dæmi úr Miðfirðinum um vinnuhjú sem reyndust húsbændum sínum óþýður ljár í þúfu, um bændur og hjú sem stóðu saman gegn valdboði hreppstjóra og sýslumanns, og um einstaklinga sem lifðu á jaðri þessa kerfis sem flakkarar eða ómagar. Þannig verður reynt að skapa mynd af hlutskipti alþýðufólks í Húnavatnssýslu á 19. öld og öðlast dýpri skilning á daglegu amstri þeirra.
Sögusýningin Mitt er þitt og þitt er mitt – konur á fyrri tíð var opnuð á Byggðasafninu þann 14. febrúar síðastliðinn, en þar er fjallað um líf og störf kvenna á fyrri tíð.