30/10/2024

Með Fyrirheit í tónleikaferð um Vestfirði

Í haust kom út hljómplatan Fyrirheit, en aðalflytjandi og lagahöfundur á plötunni er Bjarni Ómar Haraldsson tónlistarmaður og deildarstjóri Tónskólans á Hólmavík. Þetta er önnur sólóplata Bjarna en árið 1998 sendi hann frá sér plötuna Annað líf. Frá því að platan kom út hafa þeir Bjarni Ómar og Stefán Steinar Jónsson píanóleikari haldið tónleika víða um land og nú er komið að því að þeir heimsæki norðanverða Vestfirði og verða tónleikar frá fimmtudegi fram á sunnudag á Ísafirði, Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Bolungarvík og Súðavík.

Þeir félagar hefja leikinn á Kaffi Edinborg á Ísafirði fimmtudagskvöldið 30. apríl klukkan 22:00. Föstudaginn 1. maí eru tónleikar í félagsheimilinu á Þingeyri klukkan 16:00 og á Vagninum á Flateyri klukkan 21:00. Laugardaginn 2. maí er komið að Suðureyri við Súgandafjörð og fara tónleikarnir þar fram í kirkjunni kl. 16:00. Klukkan 21:00 sama dag spila þeir svo í Einarshúsi í Bolungarvík. Síðustu tónleikarnir í þessari ferð fara fram á veitingastaðnum Ömmu Habbý í Súðavík sunnudaginn 3. maí og hefjast þeir kl. 16:00. Aðgangur er ókeypis.

Þeir félagar flytja lögin á plötunni í þægilegum útsetningum fyrir píanó, kassagítar og söng og rekja tilurð texta og laga ásamt því segja frá því sem kemur upp í hugann hverju sinni. Vakinn er athygli á að frítt er á alla tónleikana en að þeim loknum mun Bjarni selja og árita diskinn fyrir áhugasama. Tónleikarnir eru styrktir af Menningarráði Vestfjarða.

Um hljómplötuna Fyrirheit

Hitann og  þungan af öllum hljóðfæraleik á plötunni ber allt muligt maðurinn Borgar Þórarinsson, en aðrir sem koma við sögu auk Borgars og Bjarna eru trommuleikarinn góðkunni Haukur Pálmason og slagverksmaðurinn Svavar Viðar Hafþórsson. Um bakraddir og dúetta sjá Strandamennirnir Aðalheiður Lilja Bjarnadóttir sem er dóttir Bjarna, Arnar S. Jónsson, María Mjöll Guðmundsdóttir, Salbjörg Engilbertsdóttir, Sigurrós G. Þórðardóttir og Stefán S. Jónsson. 

Diskurinn inniheldur 12 lög og eru flestar lagasmíðarnar  melódískt popp í rólegri kantinum. Ástin og samkipti kynjanna skipa stórt hlutverk í textagerð.  Bjarni Ómar á sex texta á disknum en auk hans eru tveir aðrir textahöfundar frá Hólmavík, þau Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir kennari og Arnar S. Jónsson framkvæmdastjóri Sauðfjársseturs á ströndum. Í textagerðinni koma einnig við sögu Jónas Friðrik Guðnason frá Raufarhöfn, Oddur Bjarni Þorkelsson úr Ljótu hálfvitunum, Þorgerður Þóra Hlynsdóttir á Skagaströnd og Helgi Jónsson sem meðal annars var hljómborðsleikari í hljómsveitinni Írafár.

Upptökur fóru fram í júní – september 2008. Tekið var upp í stúdió Hljóðhimnum sem staðsett er í Hornslet í Danmörku og Hljóðlist á Akureyri. Þá var sumarbústaðnum Brekkuseli á Ströndum breytt í stúdíó í eina viku  í júlí þar sem allar bakraddir voru teknar upp. Eftirvinnsla og mastering fór fram stúdíó Hljóðhimnum. Upptökustjórn var í höndum Borgars Þórarinssonar en hann var einnig upptökumaður og sá um masteringu.