22/12/2024

Margar hendur vinna létt verk

Nú styttist óðum í Hamingjudaga á Hólmavík og þar með talið listasýninguna sem verður í gamla kaupfélagshúsinu á fyrstu hæð, en þar verður fjölbreytt og þétt sýning í einu rými í bland við lifandi tónlist og kaffihúsastemningu. Í fréttatilkynningu frá aðstandendum kemur fram að hjálp við að þrífa, spartla og mála innanhúss væri vel þegin, en ætlunin er að hittast í gamla kaupfélaginu á laugardag frá kl. 13:00 – 17:00 og mánudag, þriðjudag og miðvikudag (25.-27. júní) frá kl.16:00 – 19:00. Skipuleggjendur lofa hressum sjálfboðaliðum góðri skemmtan og kaffisopa.

Einnig er óskað eftir fólki sem hefur áhuga á að flytja tónlist á laugardaginn 30. júní á bilinu kl. 10:00-20:00. Gaman væri að hafa tónlist frá einstaklingum, hópum, ungum sem öldnum – bara alla flóruna. Áhugasamir geta haft samband við Hildi í s. 661-2010, hilgudjo@khi.is  eða Ingu í s. 695-4347, inga@holmavik.is.

Á sýningunni sýna þessir listamenn:

Agnar Már Kristinsson frá Hólmavík sýnir 10-15 blýants- og kolateikningar.

Ásdís Jónsdóttir fjöllistakona á Hólmavík sýnir 10 vatnslitamyndir.

Bergur Thorberg sýnir, selur og býr til kaffilistaverk www.thorberg.is.

Einar Hákonarson listmálari sýnir valin málverk www.einarhakonarson.com.

Sandra María Sigurðardóttir listmálari verður með sýninguna Sex www.sandramaria.net.

Sýningin Kaldalón og Kaldalóns á vegum Snjáfjallaseturs í Dalbæ á Snæfjallaströnd www.snjafjallasetur.is/kaldalon.

Opnun listasýninga verður síðan á föstudagskvöldið 29. júní kl.18:00. Boðið verður upp á hressingu og tónlistaratriði og eru allir hjartanlega velkomnir.