23/12/2024

Mannbjörg varð

580-vetur2
Aðsend grein: Matthías Lýðsson í Húsavík.

Þegar bátum hekkist á, þeir stranda eða sökkva og svo giftusamlega tekst til að áhöfnin bjargast er oft notað orðalagið „mannbjörg varð“. En það er víðar en á sjó sem mannbjörg verður. Fyrir síðustu áramót áttu félagar björgunarsveita víða um land annríkt við að hjálpa fólki og bjarga verðmætum. Þann 30. des. voru til dæmis 7 félagar úr Björgunarsveitinni Dagrenningu á Hólmavík allan daginn í fiskeldisstöð Háafells á Nauteyri en þar höfðu þök rofnað og m.a. fennt inn á loft yfir íbúðarálmu. Tveir félagar sveitarinnar fóru þaðan á snjósleðum til að vitja um fólkið á Skjaldfönn, en þangað hafði verið símasambandslaust í nokkurn tíma. Á Skjaldfönn reyndist sem betur fer allt í lagi.

Um kl. 4.00 aðfaranótt 29. desember óskaði Neyðarlínan eftir aðstoð björgunarsveitarinnar Dagrenningar vegna bíls sem var fastur á Steingrímsfjarðarheiði. Þegar komið var á staðinn reyndust þar vera tveir bílar með 10 erlenda ferðamenn auk tveggja íslenskra bílstjóra. Fólkið var þarna á ferð í versta veðri sem komið hefur í langan tíma hér um slóðir, um langan fjallveg sem er þekktur fyrir annað en blíðar vangastrokur í vetrarveðrum.

Örskammt frá staðnum þar bílarnir höfðu stöðvast er veðurstöð Vegagerðarinnar. Á sírita hennar sést að þarna var meðalvindur 30m/sek og fór í hviðum í 38m/sek. Frostið var 3 stig. Miðað við vindkælingastuðul Veðurstofunnar er þetta ígildi 25-30 gráða frosts. Þarna var náttmyrkur og iðulaus hríð. Bílljós hurfu í sortann á 5 metra færi og kófið fyllti vitin þannig að ekki var hægt að ná andanum. Ef farið var úr skjóli bílanna varð nánast að leggjast niður til að fjúka ekki. Í bílum ferðafólksins var ástandið ekki gott. Hríðarkófið hafði lokað fyrir loftinntök, annar var kominn út af og skóf inn í hann um allar smugur. Það var litlu betra í hinum sem gekk þó enn hægagang.

Það tókst að koma fólkinu til byggða og í húsaskjól. Þriggja tíma ferð, leið sem ekin er við góðar aðstæður á 20 mínútum. Á Steingrímsfjarðarheiði herti bæði frost og vind. Meðalvindur var mestallan daginn 32-34m/sek og frostið fór í 8 stig.

Það var sem betur fer símasamband. Það voru björgunarsveitarmenn sem héldu til hjálpar á tækjum sem þeir kunnu að nota. Aðgerð heppnaðist. Mannbjörg varð!

Þökk er lítið orð. Það eru þó einu launin sem liðsmenn björgunarsveitanna fá til viðbótar þeirrar gleði að geta orðið samferðafólki sínu að liði. Þökkin og gleðin kosta hins vegar ekki endurnýjun á tækjum og búnaði, þjálfun liðsmanna sveitanna, eldsneyti á tæki o.s.frv. Björgunarsveitirnar njóta þó sem betur fer víðtæks stuðnings landsmanna, fyrirtækja og sveitarfélaga. Óskandi er að við berum gæfu til þess áfram að styðja við björgunarsveitir landins og þá getum við vonandi oftar vænst þess að fréttir af óhöppum til lands og sjávar hefjist á orðunum: Mannbjörg varð.

Matthías Lýðsson,
Húsavík við Steingrímsfjörð