02/11/2024

Mannað geimfar á Drangsnesi?

Samkvæmt áreiðanlegum tíðindum fréttavefsins baggalutur.is lenti mannað geimfar í Kaldrananeshreppi fyrir hádegi í fyrradag. Fréttavefnum strandir.saudfjarsetur.is bárust þessi tíðindi ekki fyrr en í kvöld, en við gefum þeim Baggalútsmönnum orðið.

Mannað geimfar lendir í Kaldrananeshreppi

Geimfarið Obscurer lenti í morgun á Drangsnesi í Kaldrananeshreppi og mun það í fyrsta sinn sem mannað geimfar lendir á þeim slóðum.
„Þetta er lítið skref fyrir mann – og jafnvel enn minna fyrir mannkynið," sagði William Ztarblaster leiðangursstjóri vonsvikinn þegar hann steig fyrstu skrefin á eyðilegu yfirborðinu í hellirigningu og roki nú laust fyrir hádegi.
Er áætlað að geimfarið snúi aftur til Nevada í Bandaríkjunum eftir að áhöfnin hefur lokið sýnatöku en þetta mun lokatilraun bandarísku geimferðastofnunarinnar í leit sinni að vitsmunalífi á Vestfjörðum.

strandir.saudfjarsetur.is fagnar því að þessir Bandaríkjamenn skuli hafa haft sig strax á brott án þess að spilla vitsmunalífi Strandamanna varanlega með of langri dvöl.