22/11/2024

Lykillinn er menntun og aftur menntun

Aðsend grein: Sturla Böðvarsson
Við stjórnmálamenn, á vettvangi Alþingis, ríkisstjórnar og sveitarstjórna,  höfum tekið það hlutverk að okkur að setja lög í landinu og vinna að hagsmunamálum íbúa einstakra sveitarfélaga eða  kjördæma. Í því samhengi er í mörg horn að líta. Við leitum leiða til þess að móta samfélagið á tilteknum hugmyndafræðilegum forsendum. Hugmyndafræðina þróum við og færum í framkvæmd á vettvangi stjórnmálaflokkanna þar sem við tökum höndum saman við samherja sem vilja starfa innan flokka við að móta samfélagið til hagsbóta fyrir land og lýð.

Styrkur sjálfstæðisstefnunnar

Í gegnum tíðina hafa flokkar komið og farið. Sú stjórnmálastefna, sem hefur haldið sínu striki í íslensku samfélagi, er sjálfstæðisstefnan sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað. Sjálfstæðisstefnan hefur ekki hlotið sömu örlög og kommúnisminn og kenningar vinstrisinna eða samvinnuhreyfingin sem var mikill áhrifavaldur í íslensku samfélagi en hrundi sem spilaborg.  Styrkur sjálfstæðisstefnunnar er að hún treystir á einstaklinginn.  Sjálfstæðisstefnan hvetur  til einkaframtaks og frelsis til athafna þar sem stétt vinnur með stétt  um leið og samfélagið tryggir öryggisnet til stuðnings þeim,  sem vegna tímabundinna eða langvarandi aðstæðna, vegna sjúkleika eða fötlunar, þurfa að nýta sér það tryggingakerfi sem við höfum skapað með sameiginlegum sjóðum okkar. Sjálfstæðisstefnan hefur mótast í tímans rás og á grundvelli hennar höfum við markað stefnu framtaks og framfara. Núna erum við að njóta ávaxtanna af festu í stjórnarfari og  ráðdeild í ríkisfjármálum þar sem skuldir ríkissjóðs eru lægri en nokkru sinni. Þessi staða skapar okkur skilyrði til þess að leggja á ráðin um næsta uppbyggingarskeið í þágu landsins alls. Við sjálfstæðismenn viljum nú marka stefnuna um hvernig við nýtum okkur þau mikilvægu sóknarfæri sem við höfum lagt grunninn að. En það gerist ekki af sjálfu sér. Því eru mikilvæg verk að vinna á næsta kjörtímabili.

Byggðin þróast í takt við atvinnulífið í landinu

Að undanförnu hef ég svo sem eðlilegt er mjög hugsað um þetta mikilvæga hlutverk okkar stjórnmálamanna vegna alþingiskosninganna. Það hefur verið spurt; hvað hafið þið gert og hvað viljið þið gera svo byggðirnar blómstri um landið allt? Þar er af mörgu að taka. Í þessari grein vil ég leyfa mér að setja fram hugleiðingar um það hvernig við getum skapað umhverfi svo við getum nýtt auðlindirnar til lands og sjávar um landið allt og hvað við þurfum að gera til þess að nýta þá uppbyggingu sem til staðar er í byggðum Norðvesturkjördæmis og  skapa atvinnutækifæri fyrir sem flesta.

Stjórnvöld hafa unnið að því að bæta ytra umhverfi og innviði samfélagsins.

Breyttir atvinnuhættir eru stærsti áhrifavaldurinn um þróun byggðanna. Stórfelld fækkun starfsmanna við fiskvinnslu, sjósókn og landbúnaðarstörf hafa ráðið úrslitum um fækkun atvinnutækifæra á landsbyggðinni. Hröð tækniþróun í útgerð, fiskvinnslu og landbúnaði  ásamt breyttum neysluháttum hefur leitt til fækkunar þeirra sem vinna beint að framleiðslustörfum í hinum hefðbundnu atvinnugreinum. Allt eru þetta þekktar staðreyndir en engu að síður er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir forsendum breytinganna. Þær eru ekki vegna stjórnvaldaðgerða. Þær eru vegna þróunnar og breytinga í samfélaginu.  Það er í þessu ljósi  sem við verðum að bregðast við og leita nýrra leiða til atvinnusköpunar.

Þessar miklu breytingar hafa kallað á nýja hugsun á vettvangi stjórnmálanna. Og það er við þessar aðstæður sem kallað er á fleiri störf frá hinu opinbera kerfi sem hefur vissulega þanist út og þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.

Hvar er uppspretta vaxtar og velmegunar?

En hvar er uppspretta þess auðs sem samfélagið þarf til þess að standa undir allri þeirri miklu þjónustu sem einstaklingar þurfa og  hið opinbera veitir. Sú uppspretta er í framleiðslu sem er seld á markaði erlendis eða þjónustu sem seld er til ferðamanna eða kaupenda þjónustu svo sem á sviði hátækni og fjármálaþjónustu sem er veitt utan efnahagskerfis okkar og gefur því gjaldeyristekjur inn í hagkefið.  Þær tekjur standa að sínum hluta undir ríkisútgjöldum með skatttekjunum sem af þeirri starfsemi fæst. Það er því nauðsynlegt að leita allra leiða til þess að nýta auðlindir okkar til lands og sjávar og einnig að nýta orkuna sem býr í fallvötnum og varmaorkuna sem hefur tekist að beisla með ótrúlegum árangri. Það verður ekki gert án þess að til komi þekking og færni á sviði hátækni á öllum sviðum. Það sem mun ráða útslitum um vaxtarsvæði framtíðarinnar er menntun og færni einstaklinganna til að nýta sér tækifærin við sjávarútveg, við landbúnaðarframleiðslu, við iðnaðarstarfsemi og markaðsstarfsemi  sem sækir  fram í þágu byggðanna. Til þess að ná árangri í nýsköpun er grundvöllurinn eðlilegt framboð af þjónustu mennta og rannsóknarstofnana sem verði í  byggðakjörnunum landshlutanna.

Öflugar menntastofnanir

Það er mitt mat að framþróun á sviði atvinnulífsins í Norðvesturkjördæmi muni ráðast af því hversu hratt og vel við getum byggt upp góðar og metnaðarfullar menntastofnanir frá grunnskóla til háskóla- og rannsóknarstofnana . Við eigum allt undir  því að unga fólkið geti menntað sig sem best í heimabyggð og hafi tækifæri til þess að sækja framhaldsnám til öflugra menntastofnana bæði innanlands og utan. Þannig mun byggðin styrkjast þegar þekkingin verður sem mest og tækifærin til þess að nýta möguleika og kosti hvers landshluta. Lykillinn er menntun og þjálfun einstaklinga sem verði ekki síður öflugir þátttakendur í framleiðslu starfsemi en opinberri þjónustu. Við lifum ekki á ríkisþjónustu einni saman.

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra