22/12/2024

Lúsin í heimsfréttunum

Hólmavík hefur verið í fréttunum í dag vegna óboðnu gestanna sem gripnir voru glóðvolgir í kringum áramótin. Hér er átt við lýsnar sem gert hafa ýmsum gramt í geði síðustu daga, en slík kvikindi hafa ekki gert vart við sig hér um árabil. Líklega er það ástæðan fyrir athyglinni, en lúsin finnst víðast hvar á hverju ári og í skólum á höfuðborgarsvæðinu verður víða vart við hana eftir hvert frí.

Bæði hefur birst frétt af því á www.bb.is og á forsíðu Fréttablaðsins að sóttar hafi verið birgðir af lúsasjampói til Reykjavíkur í gær. Á bb-vefnum kemur fram að leigubílstjóri fór með sjampóið frá Reykjavík og starfsmaður Heilbrigðisstofnunar Hólmavíkur mætti honum síðan á miðri leið.

Nánar má fræðast um lýsnar á vefsíðu Landlæknis – til dæmis hér og hér. Einnig er fróðlegt, vilji menn kynnast sögu skepnunnar, að líta á Vísindavefinn og skrifa inn viðeigandi leitarorð.