21/11/2024

Lokahnykkurinn í kynningu á Fyrirheitum Bjarna Ómars

Þessa dagana eru tónlistarmennirnir Bjarni Ómar Haraldsson og Stefán Steinar Jónsson píanóleikari að ljúka tónleikahaldi sínu vegna kynninga á sólóplötu Bjarna Fyrirheit sem kom út  síðastliðið haust. Á tónleikunum flytja þeir efnið af plötunni, spjalla við áheyrendur um daginn og veginn og segja frá tilurð laga og texta ásamt skemmtilegum sögum sem komu til við gerð plötunnar. Tónleikar verða haldnir í sal Grunnskólans á Borðeyri í kvöld, mánudaginn 15. júní, og aðrir þriðjudagskvöldið 16. júní á veitingastaðnum Skriðulandi. Báðir tónleikarnir hefjast klukkan 20:30 og  vakin er athygli á að enginn aðgangseyrir er inn á tónleikana.

Að tónleikunum loknum mun Bjarni selja og árita diskinn fyrir áhugasama. Áætlun þeirra félaga gerði ráð fyrir að formlegu tónleikahaldi í  tilefni af útkomu plötunnar lyki með fjáröflunartónleikum í Hólmavíkurkirkju þar sem aflað væri fjár vegna kaupa á flygli fyrir nemendur Tónskólans. Tónleikarnir á Hólmavík fara fram miðvikudagskvöldið 24. júní en nú er ljóst að það verða ekki þeir síðustu því að þeir munu verða á Kaffi Norðurfirði laugardagskvöldið 27. júní.

Tónleikarnir á Hólmavík og í Norðurfriði verða nánar auglýstir þegar nær dregur. Tónleikahaldið er styrkt af Menningarráði Vestfjarða.