22/12/2024

Litlu-jólin á Hólmavík

Litlu-jólin voru haldin á Hólmavík í gær að viðstöddu fjölmenni. Hver bekkur í Grunnskólanum á Hólmavík var með söngatriði eða sýndi leikatriði og kenndi þar ýmissa grasa, allt frá jólasöngvum og hefðbundnum helgileik til raunveruleikaútgáfu af Mjallhvíti og töffurunum 7 á ástarfleyinu. Síðan var haldið jólaball þar sem menn gengu í kringum jólatré og sjö manna stórsveitin Grunntónn lék undir. Jólasveinar litu svo í heimsókn þegar líða tók á ballið.

Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is var á staðnum og tók helling af myndum, en því miður voru flestar myndir af leikatriðum á sviðinu ónýtar þar sem ekki tókst að stilla myndavélina á viðunandi hátt og lýsingin á sviðinu var of lítil og mjög ójöfn. Myndirnar urðu því margar of dökkar eða þá hreyfðar því myndefnið var eðlilega á sífelldu iði í leikritunum.

Ljósm. Jón Jónsson.