Frumsýning Leikfélags Hólmavíkur, Tónskóla Hólmavíkur og Grunnskólans á Hólmavík á hinu geysivinsæla leikverki Dýrin í Hálsaskógi eftir Norðmanninn Thorbjørn Egner nálgast nú óðfluga. Uppsetningin er samstarfsverkefni fyrnefndra stofnana og félags, en leikstjóri er Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir og tónlistarstjóri er Bjarni Ómar Haraldsson. Frumsýnt verður í félagsheimilinu á Hólmavík nk. föstudag, þann 14. mars kl. 19:00. Önnur sýning verður einnig í félagsheimilinu 15. mars kl. 15:00 og síðasta sýningin fer síðan fram í Vogalandi í Króksfjarðarnesi á pálmasunnudag kl. 17:00. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is kíkti á fjöruga æfingu í gærkvöldi og smellti af nokkrum myndum.
Bakaradrengurinn og Bangsli litli (Daníel og Magnús).
Hér mætast kynslóðir – og fjölskyldur. Kristján Sigurðsson og Agnes Kristjánsdóttir hamra á hljóðfærin.
Nokkrir snillingar sjá um hljóðið – Lárus Orri Eðvarðsson er einn af þeim.
Leikæfingar geta verið langar og strangar. Hér sefur Bóndinn (Jón Gústi Jónsson) svefni hinna ranglátu.
Stórleikarinn Einar Indriðason fer listilega með hlutverk Mikka Refs.
Marteinn Skógarmús (Arna Margrét Ólafsdóttir) er helsti verkalýðsforkólfurinn í Hálsaskógi.
Hópurinn eins og hann leggur sig – nema hundurinn Habbakúk (leikinn af Jóni Jónssyni). Hann er of vitlaus til að vera með í svona virðulegri myndatöku.
Ljósm. Arnar S. Jónsson