22/12/2024

List á laugardegi á Hólmavík

Listahjónin Elfar Logi Hannesson og Marsibil G. Kristjánsdóttir ásamt Megakukli standa fyrir sérstökum listadegi á Hólmavík á laugardaginn 9. maí undir yfirskriftinni List á laugardegi. Það verður boðið uppá þrírétta listaseðil leiklist, myndlist og tónlist. Fyrst skal nefna að leikritið Auðun og ísbjörninn verður sýnt í Bragganum kl.15.00. Verkið hefur notið mikilla vinsælda og er tilvalin skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Klukkutíma síðar eða kl.16.00 tekur myndlistin völdin en þá opnar Marsibil G. Kristjánsdóttir einkasýningu í Þróunarsetrinu á Hólmavík. Billa hefur vakið mikla athygli fyrir verk sín og sýnt víða um land og einnig erlendis. Boðið verður uppá léttar veitingar í tilefni af opnun sýningarinnar.

Veislunni lýkur síðan með tónleikum á Café Riis sem hefjast kl. 22. Megakukl nefnist konsertinn og þar munu stíga á stokk Hjaltason, Hólmgeirsson, Mr. Hólm og Kómedíuleikarinn. Á efnisskránni er úrval laga úr smiðju Bubba, KK og Megasar. Aðgangseyrir litlar 1.000.- krónur. Tónleikarnir standa til kl. 1 um nóttina.
Listin verður í aðalhlutverki laugardaginn 9. maí á Hólmavík og vonandi taka sem flestir þátt í ævintýrinu.