30/10/2024

Líklega ódýrasta hjólaleiga í heimi

Ákveðið hefur verið að lækka verðið hjá hjólaleigunni sem starfrækt hefur verið á Upplýsingamiðstöð ferðamála á Hólmavík. Hjólaleigan hefur verið með mikil bónusverð frá því hún tók til starfa og nú á að gera enn betur og lækka verðið. Að sögn Sigurðar Atlasonar framkvæmdastjóra Strandagaldurs sem rekur hjólaleiguna í samstarfi við Upplýsingamiðstöðina er hugsunin að sýna gott fordæmi og sýna lit við að stemma stigu við verðbólgunni sem er á hröðum spretti upp á við í landinu þessi misserin. Verð fyrir hálfan dag í sumar verður 450 krónur og 800 krónur fyrir heilan dag. Þegar fólk tekur hjól á leigu í lengri tíma þá fær það sjöunda daginn frían.

Það hefur færst í vöxt að ferðamenn leigi sér reiðhjól og skoði sig um í nágrenni Hólmavíkur í rólegheitum. "Þetta er afar mikilvægt og hefur þau áhrif að fólk staldrar lengur við á svæðinu," segir Sigurður Atlason, "og það er gaman að geta boðið upp á svona sanngjarnt verð. Ég held að þetta hljóti að vera ein allra ódýrasta hjólaleiga í heiminum, án þess að ég hafi kynnt mér verðin um allan heim."

Öryggishjálmar fylgja öllum reiðhjólum og er leigutökum skylt að nota þá. Ekki er enn vitað hvaða áhrif lækkunin hefur á vísitölu neysluverðs.