22/12/2024

Líðan drengsins góð

Líðan drengsins er góð eftir byltuna.Eins og fram kom á strandir.saudfjarsetur.is í gær, þá varð snjósleðaóhapp við Kálfanes í gær. Óhappið átti sér stað í Bleiksdal sem liggur upp af Kálfanesbænum. Að sögn Magnúsar Gústafssonar, föður drengsins þá er líðan piltsins góð, en hann varð ekki fyrir neinum alvarlegum meiðslum - er eingöngu marinn hér og þar eftir byltuna. Þeir voru saman á sleðanum þegar hann rann fram af hengjunni en meðfylgjandi myndir tók Magnús þegar þeir feðgar fóru að virða fyrir sér vettvang óhappsins í dag.

Fjölskylda þeirra feðga, Magnúsar og Gústafs, vill senda hjartans þakkir til björgunarsveitarmanna, sjúkraflutningamanna og hjúkrunarfólks á Heilbrigðisstofnun Hólmavíkur og allra annarra sem lögðu hönd á plóginn við aðstoðina, með góðum kveðjum.

Mynd: Magnús Gústafsson.

Gústaf Hrannar kátur og sprækur við vettvang óhappsins í dag. Sleðinn rann niður fyrir ofan þar sem Gústaf stendur og ofan í volgruna vinstra megin við hann.

Mynd: Magnús Gústafsson.

Sleðinn staðnæmdist við bakkann hjá volgrunni á myndinni.

Sjá: Óhapp við Kálfanes