Stóra upplestrarkeppni 7. bekkinga í grunnskólum landsins stendur sem hæst um allt land um þessar mundir og næstkomandi föstudag kl. 14:00 verður keppni milli grunnskólanna á Drangsnesi, Hólmavík og Reykhólum haldin í Grunnskólanum á Drangsnesi. Tólf nemendur frá skólunum þremur taka þátt í keppninni og lesa kafla úr sögunni Vestur í bláinn eftir Kristínu Steinsdóttir og lesa síðan tvö ljóð hvert. Frá Drangsnesskóla verða tveir keppendur, fimm frá Hólmavíkurskóla og fimm nemendur Reykhólaskóla taka þátt í þessari skemmtilegu uppákomu þar sem allir eru hjartanlega velkomnir.